„Ég er mjög ánægður með strákana. Þetta var erfið fæðing, þetta byrjaði ekkert sérstaklega vel, en er ánægður með að vera kominn í úrslitaleikinn á frekar þunnum hóp. Við erum að glíma við frekar mikil meiðsli og erum á þunnum hóp, en strákarnir spiluðu fínan leik miðað við aðstæður,“ sagði Rúnar Kristinsson við Fótbolta.net eftir 3-1 sigur sinna manna gegn Fylki í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins í dag.
Þorsteinn Már Ragnarsson fékk tækifærið í byrjunarliðinu í fjarveru Gary Martin, sem er í fríi, og nýtti það vel.
„Steini nýtir tækifærin sín mjög vel og hann er búinn að skora í nánast öllum í Reykjavíkurmótinu. Hann er gríðarlega duglegur og samviskusamur strákur og það er frábært að hafa svona strák í liðinu. Við væntum mikils af honum í framtíðinni,“ sagði Rúnar.
KR mætir Fram í úrslitaleiknum en liðin hafa þegar mæst á þessu undirbúningstímabili.
„Þetta verður annar leikurinn við Fram á þessu tímabili sem er ekki langt, svo eigum við þá á sunnudaginn eftir rúma viku í fyrsta leik í Lengjubikar. Við tökum tvo leiki í röð og svo eigum við þá í Meistarakeppninni, þannig við spilum fjóra leiki við Fram. Svo eigum við tvo leiki í deildinni og kannski í bikar, þannig við náum kannski sjö leikjum. Þetta verður eitthvað fjör,“ sagði Rúnar.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram, er fyrrum fyrirliði KR og þekkir liðið út og inn.
„Bjarni þarf ekkert að fletta upp í neinum bókum eða horfa á marga leiki hjá okkur, hann veit nákvæmlega hvernig þetta er hjá okkur,“sagði Rúnar.
Athugasemdir