þri 06. september 2022 00:14
Brynjar Ingi Erluson
Gattuso um úrslitaleikinn í Istanbúl: Sá Maríu mey í persónu
Gennaro Ivan Gattuso
Gennaro Ivan Gattuso
Mynd: Getty Images
Gennaro Ivan Gattuso, þjálfari Valencia og fyrrum leikmaður AC Milan, hugsar enn um tap Milan í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir sautján árum.

Flestir þekkja þá sögu. Milan var þremur mörkum yfir gegn Liverpool í hálfleik þökk sé tveimur mörkum frá Hernan Crespo og einu frá Paolo Maldini.

Í þeim síðari mætti Liverpool til leiks. Steven Gerrard minnkaði muninn með skalla, Vladimir Smicer skoraði með langskoti áður en Xabi Alonso jafnaði metin er hann hirti frákast eftir að Dida varði vítaspyrnu frá honum.

Jerzy Dudek, markvörður Liverpool, var í essinu sínu í síðari hálfleiknum og í framlengingunni áður en hann kórónaði frábæran leik sinn með því að verja þrjú víti í vítaspyrnukeppninni.

Gattuso ræddi um 5-1 sigur Valencia á Getafe um helgina en hann var óánægður með að leikmennirnir hafi stigið af bensíngjöfinni í síðari hálfleiknum, enda þekkir hann vel hvernig það er að vera með góða forystu og glutra henni niður.

„Ég hef tapað úrslitaleik Meistaradeildarinnar, sem ég var að vinna 3-0 gegn Liverpool og ég sá Maríu mey í persónu. Í fótbolta verður þú að verða þessa hluti og alltaf að gera þitt besta," sagði Gattuso en frasinn um Maríu mey er mikið notaður á Ítalíu og vísar í ergilegt ástand.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner