Mættur til Íslands til að fjalla um endurkomu Gylfa í fótboltann
„Það er mjög gaman að vera hérna. Ég hef horft á fótbolta út um allan heim. Ég er búinn að reikna það út að þetta er 55. landið sem ég heimsæki til að horfa á fótbolta. Ég hafði aldrei komið til Íslands," sagði Daniel Taylor við Fótbolta.net fyrir leik Íslands og Svartfjallalands sem er núna í gangi á Laugardalsvelli
Taylor, sem starfar fyrir The Athletic og New York Times, er staddur hér á landi til að fjalla um endurkomu Gylfa Þórs Sigurðssonar í fótboltann.
Taylor, sem starfar fyrir The Athletic og New York Times, er staddur hér á landi til að fjalla um endurkomu Gylfa Þórs Sigurðssonar í fótboltann.
Gylfi er í byrjunarliði Íslands gegn Svartfjallandi en hann hefur leikið afar vel með Val í sumar. Hann bætti markamet landsliðsins gegn Liechtenstein í fyrra en þá var hann að snúa til baka eftir langa fjarveru.
Gylfi spilaði lengi í ensku úrvalsdeildinni með Swansea, Tottenham og Everton en hann sneri aftur í fótbolta í fyrra eftir tveggja ára fjarveru út af dómsmáli á Bretlandseyjum. Aldrei hefur verið upplýst í hverju ásakanirnar fólust.
„Það er mikill áhugi á Englandi um sögu Gylfa. Hann var stjarna í ensku úrvalsdeildinni í mörg ár, skoraði næstum því 70 mörk, spilaði fyrir Everton, Tottenham og var leikmaður ársins hjá Swansea og Reading. Hann átti glæstan feril á Englandi en er núna kominn aftur til Íslands. Það er enn mikill áhugi á því hvernig hann er að spila og um endurkomu hans. Það hefur í raun enginn sagt þá sögu í erlendum fjölmiðlum; um endurkomu hans í fótbolta, hvernig hann er að spila og hversu vinsæll hann er hérna," sagði Taylor við Fótbolta.net.
„Gylfi er frábær leikmaður. Hann verður 35 ára um helgina en leikur hans snerist aldrei um hraða. Heili hans var alltaf skrefi á undan. Hann er leikmaður sem gæti spilað áfram í nokkur ár í viðbót."
Líður örugglega vel hér
Taylor heimsótti Hlíðarenda og sá þar aðstæður en þær eru talsvert öðruvísi en í ensku úrvalsdeildinni.
„Ég vil ekki segja eitthvað sem lætur mig líta út eins og týpískan breskan hrokagikk. Ég man eftir leiknum 2016 þegar Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, fór í bátsferð í staðinn fyrir að horfa á Ísland spila. Það var klassískur enskur hroki. Ég vil ekki hljóma illa en þetta opnaði svolítið augu mín að fara þangað. Á Englandi er þetta völlur sem væri kannski í sjöundu eða áttundu efstu deild. Þetta er alvöru fótbolti og ég kann vel við það, en fyrir sögu Gylfa er þetta frekar áhugavert," segir Taylor.
„Hann hefði getað spilað í Washington til dæmis en valdi að koma til Íslands. Eftir allt sem gerðist á Englandi - sem var erfið staða - þá líður honum örugglega vel hér. Eftir allt sem gerðist er það líklega gott fyrir hann, betra en að fara í annað land."
Taylor segist hafa elskað sögu Íslands á EM 2016 þrátt fyrir að hann sé enskur. „Það er gaman að koma hingað og sjá Ísland spila. Ég átta mig á því að 2016 var hátindurinn en það er sterkur andi hérna og það væri gaman að sjá ykkur komast á annað stórmót. Kannski sjáum við Gylfa aftur á Englandi (á EM 2028)."
Allt viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan en þar ræðir Taylor aðeins meira um leikinn í kvöld og upplifun sína af Íslandi.
Athugasemdir