Eins og kom fram á Fótbolta.net í gærkvöldi hefur Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, tilkynnt leikmannahópnum að hann hafi ákveðið að hætta með liðið eftir tímabilið, en Þorkell Máni Pétursson, spekingur í Stúkunni skilur ekkert í þessum tíðindum.
Leiknir er einu stigi fyrir ofan FH sem situr í fallsæti Bestu deildar karla.
Fjórir leikir eru eftir af deildinni og er Leiknir í baráttu um að halda sér uppi en það mætir einmitt FH-ingum um næstu helgi.
Fótbolti.net greindi frá því að Sigurður væri búinn að tilkynna hópnum að hann væri að hætta eftir tímabilið, en hann verður aðstoðarmaður Arnars Grétarsson hjá Val á næsta tímabili.
„Sigurður Höskuldsson, hvers vegna í andskotanum erum við að tilkynna að við séum hættir þegar það eru fjórir leikir eftir upp á líf og dauða?" sagði og spurði Guðmundur Benediktsson, stjórnandi Stúkunnar.
Þorkell Máni skilur ekki af hverju þessi tilkynning Sigurðar mátti ekki bíða þangað til eftir tímabilið og leitar hann að svörum.
„Ég á ekki til orð yfir þessu. Mér finnst þetta galið og frábær tíðindi fyrir FH-inga að fara í Leiknismennina gíraða í það að þjálfarinn okkar er að fara að hætta og við í botnbaráttu. Ég skil ekki hvernig þessi tilkynning mátti ekki bíða. Búum við í þannig samfélagi að það þurfa allir að vera að tala, þó þetta hefðu verið orðrómar þá hefðu þeir geta verið það bara. Menn trúa ekki öllu sem þeir heyra í hlaðvarpsþáttum eða fæstir sem ég þekki."
„Mér finnst þetta galið og ekki góð tíðindi fyrir Leiknismenn. Þetta er ekkert þægilegt fyrir Sigga að gíra partýið áfram núna."
„Siggi er frábær þjálfari og það er staðreynd málsins. Strákarnir mínir sögðu að Siggi væri besti þjálfari sem þeir höfðu haft, en verst hvað hann væri leiðinlegur. Ég segi þetta stundum við Sigga í gríni en hann er frábær þjálfari. Þú sérð í þessum leikmannahóp sem hann er með og búinn að gera rosalega vel. Þeir eru með lang lægsta 'budgetið' og þeir eru samt að gera gott mót og eru að búa til einhverja leikmenn."
„Þetta er frábær ráðning hjá Val, ekki misskilja mig en fyrir mér hefði mátt bíða með það. Það þarf einhver að útskýra fyrir mér af hverju það var svona nauðsynlegt að koma þessu út. Siggi er svo alltof góður þjálfari til að vera aðstoðarþjálfari, ekki að ég sé að gera lítið úr því," sagði Þorkell Máni í Stúkunni.
Athugasemdir