Real Madrid girnist Palmer - Arsenal og Man Utd berjast um David - City reynir að lokka Wirtz frá Leverkusen
   mið 06. nóvember 2024 18:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mælir með að íslenskir strákar fari út á land og spili - „Mér líður mjög vel fyrir vestan"
Átti mjög gott tímabil í sumar.
Átti mjög gott tímabil í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði fimm mörk og lagði upp átta.
Skoraði fimm mörk og lagði upp átta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fékk að spila helling af leikjum og fékk mikið traust frá Davíð'
'Fékk að spila helling af leikjum og fékk mikið traust frá Davíð'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég fíla mig mjög vel og þetta hefur gengið mjög vel'
'Ég fíla mig mjög vel og þetta hefur gengið mjög vel'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benó og Sammi fögnuðu vel á hlaupabraut Laugardalsvallar haustið 2023. - 'Þá náði Sammi að sannfæra mig um að koma aftur'
Benó og Sammi fögnuðu vel á hlaupabraut Laugardalsvallar haustið 2023. - 'Þá náði Sammi að sannfæra mig um að koma aftur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þegar hann kom til baka þá sýndi hann hversu góður hann er og gerði ótrúlega mikið fyrir okkur'
'Þegar hann kom til baka þá sýndi hann hversu góður hann er og gerði ótrúlega mikið fyrir okkur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt Waren var einn af lykilmönnum Vestra á fyrsta tímabili liðsins í efstu deild. Hann er uppalinn hjá Val og Breiðabliki en snemma á meistaraflokksferlinum fór hann á lán til Ísafjarðar, tók svo eitt tímabil með ÍA í efstu deild áður en hann hélt aftur vestur.

Benedikt var á sínum yngri árin nálægt yngri landsliðunum og lék einn leik með U17 landsliðinu. Hann ræddi um nýliðið tímabil og veruna á Ísafirði við Fótbolta.net.

„Þetta var erfitt til að byrja með, vorum ekki með heimavöllinn, með mikið af meiðslum og erfiðar aðstæður á undirbúningstímabilinu; vorum að æfa á frosnum velli. Þegar leið á, og sérstaklega undir lokin, þá fannst mér við spila betur og sýndum hvað í okkur býr. Við náðum markmiðinu að halda okkur í deildinni sem er ljúft," segir Benó.

„Auðvitað er smá súrt bragð að tapa síðasta leiknum, en eins og hefur komið fram þá voru menn búnir að heyra hvernig staðan var í hinum leiknum í hálfleik og það kannski slokknaði aðeins á mönnum eftir að hafa heyrt það. Það hefði verið skemmtilegra að vinna leikinn heldur en tapa honum upp á lokakvöldið að gera, en það sem skiptir mestu máli er að við héldum okkur í deildinni og það gerði fólkið í bænum glatt."

Var einhver tímapunktur í sumar þar sem Benó var stressaður yfir því að liðið gæti fallið?

„Nei, ég var ekkert stressaður þannig séð. Ég veit hvernig Vestri er, í gegnum tíðina höfum við toppað í lokin og ég hafði ekki áhyggjur af stöðunni í deildinni framan af. Við tókum þetta bara leik fyrir leik, reyndum að bæta okkur og svo sneru menn til baka úr meiðslum. Við vorum reglulega að ná í stig og ég hafði alltaf trú á því að við værum að fara halda okkur í deildinni."

Benó var að klára sitt þriðja tímabil með Vestra, kom fyrst á láni 2021 og skipti svo alfarið fyrir tímabilið 2023.

„Mér líður mjög vel fyrir vestan, það er rosa gott fólk í kringum liðið, flottur hópur og mér hefur liðið mjög vel síðan ég kom."

Hann er samningsbundinn Vestra áfram út næsta tímabil og hefur ekki velt framtíðinni fyrir sér að öðru leyti.

Gífurlega mikilvægt tímabil
Andri Rúnar Bjarnason var markahæsti leikmaður Vestra á tímabilinu en Benedikt kom næstur, skoraði fimm mörk og lagði upp átta.

;,Þetta var bara fínt tímabil fyrir mig persónulega, fékk að spila helling af leikjum og fékk mikið traust frá Davíð. Auðvitað vill maður alltaf gera betur, en liðið náði markmiðinu sínu og það er það sem skiptir mestu máli."

„Ég var heill eiginlega allt tímabilið og er ánægður með að hafa náð heilu tímabili í efstu deild. Maður verður betri á því að spila leiki og það var gífurlega mikilvægt fyrir mig að ná fínu tímabili í efstu deild og spila mikið af leikjum."


Gerði ótrúlega mikið fyrir liðið
Hvernig var að spila með Andra Rúnari?

„Hann er ógeðslega góður, mikil gæði og mikill fótboltaheili. Hann hjálpaði mér persónulega á tímabilinu og liðinu, líka þegar hann gat ekki spilað. Þegar hann kom til baka þá sýndi hann hversu góður hann er og gerði ótrúlega mikið fyrir okkur."

Mælir með því að strákar flytji út á land og spili
Hvernig horfirðu til baka á ákvörðunina að kveðja höfuðborgarsvæðið og flytja vestur?

„Þetta var stórt skref að fara frá fjölskyldunni og flytja út á land, en ég sé ekki eftir neinu og myndi alveg mæla með þessu fyrir fleiri íslenska leikmenn; fara út á land og spila. Vestri er gott lið, þetta hefur verið góður tími og mér líður mjög vel fyrir vestan."

„Ég er stundum spurður af þeim sem hafa ekki prófað að flytja út á land, hvernig þetta sé. Mín ákvörðun að fara vestur var í byrjun til að fá spiltíma, við fórum upp úr Lengjudeildinni og héldum okkur núna í Bestu. Ég fíla mig mjög vel og þetta hefur gengið mjög vel."


Þarf undirhita á gervigrasvöllinn
Á Ísafirði eru frá því í fyrra komnir tveir gervigrasvellir og aðstaðan að verða betri. Vestramenn þurfa hins vegar að fá hita undir gervigrasið svo hægt sé að æfa þegar frost er í jörðu.

„Aðstaðan er orðin betri og það eina sem er að virkja upphitunarkerfið. Það var samt munur í ár, gátum æft á mjög flottum og góðum velli, það er mjög mikilvægt fyrir félagið að vera með þessa aðstöðu."

Harkað af sér mesta myrkrið og kuldann
Hvernig er að búa á Ísafirði yfir vetrarmánuðina?

„Auðvitað er þetta smá harka fyrstu 2-3 mánuðina á árinu, þegar mesta myrkrið er og völlurinn frosinn. Núna mættum við allir á Ísafjörð í janúar en ég kom talsvert seinna árið á undan. Þetta er kannski ekkert fyrir alla, en maður harkar þetta út og samveran með strákunum í lengri tíma fyrir mót styrkti hópinn. Við erum allir í þessu saman."

Það gaman fyrsta sumarið að hann var tilbúinn að koma aftur
Er óvænt, eftir á að hyggja, að tvítugur Benedikt Waren hafi stokkið á það að fara á lán til Ísafjarðar?

„Þegar ég kom fyrst þá var það svolítið 'fokk it', mig langaði að prófa þetta, langaði og þurfti að spila og var búinn að vera meiddur lengi. Mér fannst bara ógeðslega gaman yfir sumarið 2021, kynntist mikið af góðu fólki og þegar tækifærið kom aftur fyrir tímabilið 2023 þá náði Sammi að sannfæra mig um að koma aftur. Hann var með plan, hafði mikla trú á að liðið gæti gert góða hluti og þetta gekk allt upp í fyrra og við héldum okkur upp í ár," segir Benó.
Athugasemdir
banner
banner