Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 13. ágúst 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Nýtur þess að vera fyrir vestan: Hef ekki hugsað lengra en það
Lengjudeildin
Benedikt hefur skorað fjögur mörk í átta leikjum.
Benedikt hefur skorað fjögur mörk í átta leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Í leik með Breiðabliki í vetur.
Í leik með Breiðabliki í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Sumarið er búið að vera skemmtilegt og lærdómsríkt
Sumarið er búið að vera skemmtilegt og lærdómsríkt
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Frábært að fá tækifæri að vinna með honum
Frábært að fá tækifæri að vinna með honum
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Benedikt V. Warén gekk í raðir Vestra á láni frá Breiðabliki í upphafi félagsskiptagluggans núna í júlí. Benedikt verður tvítugur í haust og á að baki sex keppnisleiki með Breiðabliki. Þá lék hann á sínum tíma einn leik með U17 ára landsliðinu. Með Vestra hefur hann skorað fjögur mörk í átta leikjum í deild og bikar.

Benedikt skoraði eitt af mörkunum í 4-0 sigri á Þór í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í vikunni. Fótbolti.net hafði samband við Benedikt og spurði hann út í tímann hjá Vestra til þessa.

Mjög gaman fyrir vestan - Sammi sannfærandi
„Það er búið að vera mjög gaman hérna fyrir vestan, ég nýt þess að vera hérna og hafa allir tekið vel á móti mér. Aðstaðan er góð og sumarið búið að vera skemmtilegt og lærdómsríkt," sagði Benó.

Hvernig kom þetta til?

„Mig langaði í góðan spilatíma í sumar og koma mér í gott leikform þar sem síðasta ár var ég mikið meiddur og spilaði mjög lítið. Þetta var í raun aldrei spurning og gerðist mjög fljótt, ég var strax mjög spenntur og náði Sammi (meðstjórnandi knattspyrnudeildar Vestra) að sannfæra mig að koma vestur. Hann sagði mér að hér væru góðir leikmenn og að markmiðið væri að fara upp um deild."

Spiluðu sinn leik og gerðu það vel
Að þessum bikarleik, hver var lykillinn að þessum sigri?

„Við komum ferskir inn í leikinn eftir að hafa náð að vinna seinustu tvo leiki í deildinni og markmiðið var nokkuð ljóst, við ætluðum okkur áfram. Lykillinn var að spila okkar leik og við gerðum það vel."

Nikolaj Madsen skoraði tvö mörk í leiknum, bæði beint úr aukaspyrnu. Hversu góður er hann og er hann reglulega að æfa aukaspyrnurnar?

„Nikolaj Madsen er frábær leikmaður og er þvílíkur reynslubolti. Hann þarf ekki að æfa aukaspyrnur á æfingasvæðinu, hann kann þetta allt."

Ákvað bara að keyra á hann
Benedikt skoraði annað mark Vestra í leiknum, hann átti mjög öflugan sprett frá miðjum vellinum og skoraði. Þórsarar vildu fá dæmda hendi á þig, var þetta hendi?

„Nei, alls ekki," sagði Benó léttur. En hvað kom upp í hugann þegar þú fékkst boltann?

„Ég ákvað bara keyra á hann (leikmann Þórsara), sá að ég hafði tíma og pláss og var svo bara kominn að markinu og lét vaða."

Gaman að fá Valsmenn vestur
Vestri mætir Val í 8-liða úrslitunum fyrir vestan. Hvernig líst þér á að fá Íslandsmeistarana vestur?

„Það verður gaman að fá Valsmenn hingað vestur og eru leikmenn hér spenntir fyrir leiknum."

Yrðu vonbrigði að fara ekki upp
Hvernig er stemningin í hópnum og er stefnan sett á að fara upp?

„Stemningin er góð í hópnum og markmiðið okkar er klárlega að komast upp um deild. Við stefnum á það og með mannskapinn sem við erum með yrði annað vonbrigði finnst mér."

Frábært að fá að vinna með Jóni
Jón Þór Hauksson tók við Vestra í júlí. Hvernig hefur Jón Þór komið inn í þetta?

„Jón Þór er reyndur þjálfari og frábært að fá tækifæri að vinna með honum. Hann hefur komið með sínar áherslur í liðið og hefur það skilað okkur góðum úrslitum."

Verið meira í því að leggja upp
Fjögur mörk í leikjunum átta hjá þér, hvað kemur til?

„Ég hef ekki verið að skora mikið í gegnum tíðina heldur verið meira í því að leggja upp. Það hjálpar auðvitað að spila framarlega og með góða leikmenn í kringum þig. Ég hugsa aðallega um að vinna, það skiptir öllu máli."

Fjölhæfur leikmaður með það sem markmið að spila sem flesta leiki
Hver er þín uppáhaldsstaða?

„Ég hef oftast spilað á miðju en er búinn að vera spila á kantinum hér með Vestra og það er búið að ganga vel. Ég get leyst flestar stöður á vellinum."

Ertu með það sem markmið að vera hluti af U21 landsliðinu fyrir komandi undankeppni sem hefst í haust?

„Markmiðið mitt núna er að fá sem flesta leiki hér, ná góðum úrslitum og koma mér í gott leikstand. Ég hef ekki hugsað lengra en það," sagði Benó að lokum.

Næsti leikur Vestra er gegn Fram á heimavelli í Lengjudeildinni á morgun.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner