þri 07. janúar 2020 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bayern reynir að fá Cancelo að láni
Mynd: Getty Images
Portúgalski bakvörðurinn Joao Cancelo hefur ekki fundið sig hjá Manchester City og vill róa á önnur mið til að vinna sér inn sæti í portúgalska landsliðinu fyrir EM næsta sumar.

Cancelo, 25 ára, var langbesti hægri bakvörður ítölsku deildarinnar á tíma sínum hjá Inter og Juventus en hann ákvað sjálfur að skipta yfir til Englandsmeistara Man City.

Honum hefur ekki tekist að velta Kyle Walker úr sessi í hægri bakverðinum og gæti verið á leið til Þýskalandsmeistara FC Bayern í janúarglugganum.

Bayern vill fá Cancelo að láni með kaupmöguleika en City vill helst selja bakvörðinn sókndjarfa, sem er metinn á 60 milljónir evra.

Þýskir fréttamenn telja líklegt að City muni reyna að selja Cancelo í janúar. Ef það tekst ekki verður hann lánaður til Bayern undir lok gluggans.

Bayern er einnig á höttunum eftir Leroy Sane, 23 ára kantmanni City sem á aðeins nokkrar vikur eftir af endurhæfingu eftir erfið meiðsli. Ólíklegt er að Sane skipti um félag í janúar en hann gæti farið næsta sumar.

Bayern hefur einnig verið orðað við Lukas Klostermann, þýskan bakvörð RB Leipzig, en þjálfarateymið vill frekar fá Cancelo.
Athugasemdir
banner
banner
banner