„Þeir voru fínir, þeir voru þéttir fyrir og það var erfitt að brjóta þá niður. En mér fannst við geta hreyft boltann aðeins betur og myndað fleiri og hættulegri stöður.“ Sagði Valdimar Þór Ingimundarson leikmaður Víkinga eftir nokkuð torsóttan 2-0 sigur Víkinga á nýliðum ÍBV í Bestu deildinni í Víkinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 ÍBV
Markalaust var í hálfleik og var það tilfinning fréttaritara að Víkingar væru ekki á fullu gasi svo að segja í fyrri hálfleiknum.
„Já við ræddum það í hálfleik að við ættum nóg inni. Þetta var svona smá fyrsti leikurinn stemming og við þurftum að koma okkur í gang en þetta hafðist og við erum sáttir með þrjú stig.“
Víkingar léku lungan úr síðari hálfleik manni færri eftir Gylfa Sigurðssyni var vikið af velli með rautt spjald. Um það að leika manni færri sagði Valdimar.
„Við höfum lent í þessu áður og erum bara mjög góðir í að eiga við það þegar þetta gerist. Þetta gerist og það þýðir ekkert að vera hugsa um þetta spjald heldur bara halda áfram sem við og gerðum.“
„Við bara vitum hvernig við eigum að spila manni færri. Á heimavelli líka þar sem er gott að vera með áhorfendurnar.“
Sagði Valdimar en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir