„Við vorum mjög ólánsamir í seinni hálfleik að setja ekki á þá því ef mark númer tvö hefði dottið inn hjá okkur þá er ég klár á því að við hefðum jafnað þetta," sagði Heimir Þorsteinsson þjálfari Fjarðabyggðar eftir 3-1 tap gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í kvöld.
„Þetta er bara sama sagan endalaust, við erum að gefa þeim tvö mörk í fyrri hálfleik, þetta eru bara gjafir. Þetta er ekki vegna þess að þeir eru góðir, heldur vegna þess að við erum að gefa þeim þessi mörk. Það er sorglegt að jafna og vera varla búnir að snúa sér við þegar við fáum á okkur mark, bara út af hreinum og klárum aulagangi. En ég ætla að hrósa strákunum fyrir seinni hálfleikinn. Fyrir utan það að slútta ekki einhverjum tveimur mörkum."
„Það er alltaf slæmt að fá á sig mörk. Það er alltaf búið að vera vandamál hjá okkur í sumar, við erum alltaf í tómu tjóni með varnarleikinn, ég er búinn að segja þetta svo oft að ég nenni því ekki lengur. En í dag hefðum við klárlega átt að fá að skora hérna 2-3 mörk í senni hálfleik. Við fengum dauðasénsa en það var bara einbeitingaskortur og gredduleysi."
„Við höldum bara áfram, það er bara næsti leikur, þetta er ekki búið, það eru sjö leikir. Þó þessir gaurar hérna í þessari stúku hafi verið að senda okkur þessa kveðju, við skulum bara spyrja að leikslokum."
Þarna vísaði Heimir í stuðningsmenn Gróttu sem sungu um að Fjarðabyggð ætti að falla niður í 2. deild þegar leið á leikinn. En hvað fannst honum um að fá svona kveðjur?
„Þetta snertir mig ekkert sjálfan, en ég veit hvernig drengirnir tóku þessu. Þetta er leiðinlegt þegar menn eru upp við vegg. Þeir eru ekkert að hvetja liðið sitt með þessu. Þetta eru bara stólar fullir af hálfvitum í mínum huga. Sumt fólk er svona, nærist á neikvæðni og leiðindum. Þetta er ekki stuðningur við hitt liðið fyrir fimm aura. Það er eins gott að þetta lið í stúkunni eigi ekki eftir að koma austur í sumar. Guði sé lof fyrir þá. Við eigum svona fólk sem kann þetta, en það bara gerir það ekki. Það kann sig."
Ítarlega er rætt við Heimi í sjónvarpinu hér að ofan þar sem hann ræðir meðal annars um stöðu Fjarðabyggðar í fallsæti og möguleikana á að bjarga sætinuí deildinni, meiðsli leikmanna og fleira.