FH tekur á móti Elfsborg í seinni leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld klukkan 18:30. Fyrri leikurinn fór fram í síðustu viku úti í Svíþjóð þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi, 4-1.
Það er því ærið verkefni framundan hjá FH sem þurfa þriggja marka sigur í kvöld og helst að halda markinu hreinu ætli þeir sér áfram í keppninni.
Það er því ærið verkefni framundan hjá FH sem þurfa þriggja marka sigur í kvöld og helst að halda markinu hreinu ætli þeir sér áfram í keppninni.
,,Þetta verður erfitt en ekki óvinnandi. Við spiluðum virkilega góðan leik að mörgu leyti úti í Svíþjóð. Einbeitingarleysi varð okkur að falli í lokin og við fengum á okkur fjögur mörk sem var óþarfi. Það er búið og gert og við þurfum að einbeita okkur að þessum leik,” sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH á blaðamannafundi í gærdag.
,,Elfsborg er öflugt sóknarlið en það eru ýmsir veikleikar á vörninni sem við sáum úti og við fengum góð færi og við þurfum að taka það með okkur í leikinn í kvöld og reyna að halda markinu hreinu.”
,,Við þurfum að spila frábæran leik og það þurfa allir að leggjast á eitt ef við ætlum að ná að slá út Elfsborg. Það eru allir klárir sem hafa verið að spila upp á síðkastið,” sagði Heimir.
Viðtalið í heild sinni er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir