banner
   sun 07. ágúst 2022 21:19
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Stjarnan fór illa með Blika í Garðabæ - Dramatískt jafntefli í Úlfarsárdal
Eggert Aron skoraði tvö fyrir Stjörnumenn
Eggert Aron skoraði tvö fyrir Stjörnumenn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Atlason var frábær gegn Blikum
Emil Atlason var frábær gegn Blikum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Þórðarson skoraði og lagði upp fyrir Fram
Magnús Þórðarson skoraði og lagði upp fyrir Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjónsson kom inná sem varamaður og skoraði og lagði upp gegn sínum gömlu félögum
Helgi Guðjónsson kom inná sem varamaður og skoraði og lagði upp gegn sínum gömlu félögum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan vann magnaðan, 5-2, sigur á Breiðabliki í 16. umferð Bestu deildar karla í kvöld er liðin mættust á Samsungvellinum í Garðabæ en á sama tíma gerðu Fram og Víkingur R. dramatískt, 3-3, jafntefli í Úlfarsárdal.

Við byrjum leiknum í Garðabæ. Breiðablik hafði aðeins tapað einum leik í deildinni fram að leiknum við Stjörnuna en það sást að Blikar voru laskaðir eftir tap liðsins við Istanbul Basaksehir í Sambandsdeildinni á dögunum.

Stjarnan tók forystuna strax á 5. mínútu. Ísak Andri Sigurgeirsson átti skot sem fór af varnarmanni Blika. Eggert Aron Guðmundsson var fyrstur að átta sig, náði til knattarins og skoraði úr þröngu færi.

Blikar jöfnuðu metin á 31. mínútu. Höskuldur Gunnlaugsson fann Viktor Karl Einarsson við vítateiginn. Hann fékk allan tímann í heiminum til að koma boltanum fyrir og átti hann hárfína sendingu á Kristin Steindórsson sem skoraði.

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, varði dauðafæri stuttu síðar. Davíð Ingvarsson fékk boltann í teignum og lét vaða en Haraldur varði frábærlega. Eftir það tók Stjarnan við sér og gerði nánast út um leikinn.

Ísak Andri keyrði vinstra megin, sá Emil Atlason kom á ferðinni, þannig hann lagði boltann rétt fyrir utan teiginn og þrumaði Emil honum framhjá Antoni Ara Einarssyni og í markið.

Fimm mínútum síðar komust Stjörnumenn í 3-1. Haraldur átti langa sendingu út frá marki og að teignum á Eggert Aron. Hann átti ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum framhjá Antoni sem var kominn vel út úr markinu. Mjög sérstakt úthlaup hjá Blikanum.

Í byrjun síðari hálfleiks gat Elís Rafn Björnsson gert út um leikinn en hann fékk boltann í teignum eftir hornspyrnu, tók hann á kassann áður en hann lét vaða en boltinn fór af varnarmanni. Elís fékk síðan frákastið en skot hans framhjá.

Stjarnan náði að gera út um leikinn þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir með tveimur mörkum. Hinn ungi og efnilegi Guðmundur Baldvin Nökkvason gerði það eftir sendingu frá Emil Atlasyni. Hann fékk sendingu inn fyrir teiginn, dansaði með boltann áður en hann potaði honum framhjá Antoni og í netið.

Tveimur mínútum síðar bætti Elís Rafn upp fyrir klúðrið sem hann átti fyrr í leiknum. Emil með góða sendingu inn í teiginn og lúrði Elís á fjær og skoraði.

Viktor Karl Einarsson minnkaði muninn fyrir Blika undir lok leiksins eftir sendingu frá Gísla Eyjólfssyni. Lokatölur á Samsung-vellinum, 5-2 fyrir Stjörnuna sem er annað liðið til að vinna Blika í Bestu-deildinni í sumar.

Blikar eru á toppnum með 38 stig á meðan Stjarnan er í 4. sæti með 28 stig.

Fram áfram taplaust í Úlfarsárdal

Fram og Víkingur R. gerðu 3-3 jafntefli í Úlfarsárdal í kvöld en leikurinn var gríðarlega spennandi og skemmtilegur fyrir augað.

Heimamenn komust óvænt yfir á 11. mínútu í gegnum tvo uppalda Framara. Guðmundur Magnússon lagði boltann fyrir Magnús Þórðarson sem kom boltanum framhjá Ingvari Jónssyni.

Víkingar sóttu og sóttu í leit að jöfnunarmarki en það kom ekki fyrir lok fyrri hálfleiksins.

Gestirnir héldu áfram að pressa á Framara í byrjun síðari en fengu mark í bakið frá Alberti Hafsteinssyni á 55. mínútu. Magnús átti fyrirgjöf inn í teiginn á Albert sem afgreiddi boltann í netið.

Davíð Örn Atlason minnkaði muninn stuttu síðar eftir sendingu frá Loga Tómassyni og í kjölfarið gerði Arnar Gunnlaugsson tvær breytingar er hann setti Erling Agnarsson og Helga Guðjónsson inná.

Þær gengu fullkomlega upp. Helgi jafnaði metin gegn sínu gamla félagi á 62. mínútu áður en Erlingur fullkomnaði endurkomu Víkinga stuttu síðar eftir að Helgi komst upp að endalínu, sendi boltann fyrir á Erling sem kom Víkingum í 3-2.

Þegar þrjár mínútur voru eftir jöfnuðu Framarar í gegnum Brynjar Gauti Guðjónsson. Tiago átti hornspyrnu sem Guðmundur kom á markið. Ingvar varði boltann og virtist hafa haldið honum er Brynjar mætti og sparkaði honum í netið. Umdeilt mark en það fékk að standa.

Víkingar fengu tækifæri til að ná í öll stigin seint í uppbótartíma er Pablo Punyed átti sendingu á fjærstöng en boltinn var skallaður í slá.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 3-3 í Úlfarsárdal. Framarar áfram taplausir á nýja heimavellinum. Víkingur er í 2. sæti með 30 stig en Fram í 7. sæti með 19 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fram 3 - 3 Víkingur R.
1-0 Magnús Þórðarson ('11 )
2-0 Albert Hafsteinsson ('55 )
2-1 Davíð Örn Atlason ('57 )
2-2 Helgi Guðjónsson ('62 )
2-3 Erlingur Agnarsson ('63 )
3-3 Brynjar Gauti Guðjónsson ('87 )
Lestu um leikinn

Stjarnan 5 - 2 Breiðablik
1-0 Eggert Aron Guðmundsson ('4 )
1-1 Kristinn Steindórsson ('31 )
2-1 Emil Atlason ('37 )
3-1 Eggert Aron Guðmundsson ('42 )
4-1 Guðmundur Baldvin Nökkvason ('72 )
5-1 Elís Rafn Björnsson ('75 )
5-2 Viktor Karl Einarsson ('93 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner