Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
   fös 07. október 2022 16:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Bjarni Jó enn í fínu standi - „Ekki alveg samstíga hvað það varðar"
Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni hefur síðustu tvö árin stýrt Njarðvík.
Bjarni hefur síðustu tvö árin stýrt Njarðvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Njarðvík var langbesta liðið í 2. deild í sumar.
Njarðvík var langbesta liðið í 2. deild í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Aðsend
Samúel Samúelsson, formaður Vestra.
Samúel Samúelsson, formaður Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni var að klára sitt 34. tímabil í meistaraflokksþjálfun.
Bjarni var að klára sitt 34. tímabil í meistaraflokksþjálfun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég óska Arnari og félaginu alls hins besta á næstu árum," segir reynsluboltinn Bjarni Jóhannsson í samtali við Fótbolta.net.

Bjarni ákvað á dögunum að hætta sem þjálfari Njarðvíkur eftir að hafa komið liðinu upp með miklum yfirburðum. Njarðvík endaði á toppi 2. deildar í sumar með 18 stigum meira en liðið í þriðja sæti; þeir skoruðu flest mörk og fengu á sig fæst mörk í deildinni.

„Ég er bara hæstánægður með það hvernig mótið spilaðist í sumar. Við áttum frábært tímabil," segir Bjarni sem stýrði Njarðvík í tvö ár.

„Það sem hefur kannski einkennt þessi lið sem eru nálægt Reykjavík og í neðri deildum, það er mikil leikmannavelta. Árið sem ég tók við var leikmannaveltan mjög mikil og það tekur tíma að búa til lið. Þó þetta sé 2. deild þá er 'standardinn' á deildinni alltaf vaxandi. Munurinn frá fyrsta og öðru ári var einfaldlega sá að við vorum klárir með liðið okkar í janúar núna. Í fyrra vorum við ekki klárir með þetta fyrr en mótið var byrjað. Við fengum lykilmenn seint inn og svo framvegis."

„Þegar upp var staðið þá var þetta mjög vel gert hjá okkur."

Njarðvík var í efsta sæti 2. deildar eftir fyrstu umferð og lét það sæti ekki frá sér eftir það. Liðið var á toppnum eftir hverja einustu umferð í deildinni, alveg þangað til mótið var flautað af.

„Þetta var geggjað tímabil, við vorum í efsta sæti í hverri einustu umferð. Við skorum að jafnaði þrjú mörk í leik og fáum bara á okkur eitt. Þetta var frábært að flestu leyti. Liðið var mjög heilsteypt. Við áttum líka frábæra leiki í bikarnum og stóðum okkur vel þar. Við unnum titil í B-deild Lengjubikarsins í vor og það hjálpaði. Allt svona - litlir titlar - þeir hjálpa helling inn í mótið. Við fórum með kassann út í þetta mót. Við byrjuðum frábærlega og það var ákveðinn lykill að þessu."

„Þetta er samspil margra þátta og atriða, en ég held að það sé lykillinn að þessu - að þú sért með hópinn klárann í janúar. Frá æfingamótunum voru litlar breytingar á liðinu sem spilaði fyrsta leik og fer inn í mótið. Kjarninn var klár og þannig er þetta farsælast."

„Samheldnin í hópnum var mjög mikil og stemningin var góð. Við vorum með nokkuð þroskað lið, við vorum líkamlega sterkir og það var gott jafnvægi í liðinu hvað varðar hæð, hraða og ýmislegt. Samsetningin heppnaðist mjög vel. Við vorum með þroskað lið, við vorum kannski ekki með marga unga menn - þetta var reynslumikið lið og okkur tókst að dreifa álaginu vel."

Í sjötta skipti sem Bjarni fer upp um deild
Bjarni var að klára sitt 34. tímabil í meistaraflokksþjálfun en hann heur marga fjöruna sopið í þessum bransa. Þetta er í sjötta sinn sem Bjarni fer upp um deild, en hann ákvað að hætta að þjálfa Njarðvík eftir leiktíðina.

Hann segir að ástæðan fyrir viðskilnaðinum sé sú að hann og stjórn Njarðvíkur hafi ekki alveg verið samstíga um næstu skref. Því hafi verið tekin ákvörðun um að fara í breytingar.

„Þetta er í sjötta skipti sem ég fer upp með lið þannig að ég er ekki alveg nýgræðingur í því. Við settumst niður og fórum yfir málin. Ég tel mig nú vita hvað þurfi til að halda velli. Við vorum ekki alveg samstíga hvað það varðar. Það voru litlir hlutir sem voru þess valdandi að ég læt þetta gott heita þarna."

Njarðvík ákvað að ráða Arnar Hallsson, fyrrum þjálfara Aftureldingu og ÍR, til starfa í staðinn. Það verða miklar breytingar á liðinu fyrir Lengjudeildina á næstu leiktíð því Einar Orri Einarsson fékk ekki áframhaldandi samning og Magnús Þórir Matthíasson er hættur en þeir spiluðu báðir lykilhlutverk í sumar.

Eftir að það var tilkynnt að Bjarni yrði ekki áfram þá kastaði Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Þungavigtarinnar, því fram að Njarðvíkingar hefðu boðið Bjarna mun lægri laun með nýjum samningi. Því yrði hann ekki áfram, en þjálfarinn reyndi segir það engan veginn rétt.

„Það er gripið úr lausu lofti. Við vorum ekki einu sinni komnir svo langt. Svona gamall þjálfari eins og ég, einhverjar krónur til eða frá í minn vasa skipta ekki höfuðmáli. Það skiptir máli hvernig menn ætla að fara inn í mótið, með hvaða hugarfari og leiðum. Þetta er gripið algjörlega úr lausu lofti."

Er í námi þessa stundina
Bjarni er orðinn 64 ára gamall en hann er þessa stundina í námi í Háskóla Íslands. Hann er að bæta við sig þekkingu.

„Ég er framhaldsskólakennari í Borgarholtsskóla. Ég er í ársleyfi frá skólanum og stunda núna nám í HÍ. Maður er að stúdera þessa dagana. Það er hugsanlegt að ég fari í smá nám erlendis, en það er ekki komið í ljós enn þá," segir Bjarni en þegar hann er spurður að því hvernig námi hann er í þá segir hann:

„Ég er í námi sem heitir hagnýt heilsuefling. Það er diplómanám í Háskóla Íslands."

Ætlar hann að nýta þetta nám við vinnu?

„Ég er að fara að hætta að vinna maður, ég er orðinn það gamall," segir Bjarni léttur. „Ég er búinn að vera framhaldsskólakennari lengi. Ég setti á laggirnar Afrekið í Borgó á sínum tíma. Ég er að afla mér þekkingar og kannski efla afrekið í framhaldsskólum enn frekar. Ég er að ná mér í þekkingu og nýjar leiðir."

Var hættur fyrir löngu
Bjarni er einn af reynslumestu þjálfurum landsins, en hann hóf þjálfaraferilinn á heimaslóðunum með Þrótti Neskaupstað. Á sínum ferli hefur Bjarni þjálfað Tindastól, Grindavík, Breiðablik, ÍBV, Fylki, Stjörnuna, KA og Vestra ásamt því að hafa verið aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands en hann hefur lyft öllum helstu titlum sem hægt er að vinna hér á landi.

„Ég var hættur fyrir löngu, en Sammi vinur minn í Vestra náði mér á flot aftur árið 2018," segir Bjarni.

„Á þessum tíma er maður alltaf að spekúlera í því hvort maður eigi ekki að láta þetta duga. Ég held ég sé búinn að stjórna yfir 600 meistaraflokksleikjum bara í deild. Einhvern tímann endar þetta, en maður er í fínu standi enn þá. Maður er að meta stöðuna og svo sér maður til hvernig landið liggur."

„Ég loka engum hurðum, alls ekki. Ég er alveg til í að skoða hlutina með skemmtilegu og duglegu fólki," segir Bjarni sem hefur verið orðaður við Grindavík upp á síðkastið. Hann segist hins vegar ekki hafa heyrt í Grindvíkingum, en hann hefur tvisvar á sínum ferli þjálfað þar.

Það verður spennandi að sjá hvað þessi reynslumikli þjálfari tekur sér næst fyrir hendur en hann er enn með bullandi ástríðu fyrir fótboltanum og lokar engum hurðum eftir góð tvö ár í Njarðvík.

Sjá einnig:
Miklar breytingar hjá Njarðvík - Maggi Matt og Einar Orri hætta


Athugasemdir
banner
banner