„Allir fótboltaleikir skipta einhverju máli en örlög okkar voru ráðin fyrir þennan leik, við vorum fallnir úr deild. Við ætluðum að koma hingað og ná í sigur sem tókst ekki," sagði Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir 1 - 1 jafntefli við ÍBV í lokaumferð Bestu-deildar karla í dag en ljóst er að bæði lið falla úr deildinni þetta árið.
Lestu um leikinn: ÍBV 1 - 1 Keflavík
„Mér fannst við spila ágætan leik fram að markinu þeirra. Þá fór loftið úr okkur og þeir herja á okkur og fá fullt af færum. Við fengum líka gott færi í byrjun seinni hálfleiks, einn í gegn og hefðum geta gert út um leikinn með 2-0 en fór sem fór."
Haraldur hafði sagt fyrir leik að hann vildi fá ÍBV með sér niður í Lengjudeildina því honum finnst svo gaman að koma til Vestmannaeyja.
„Það var meira í gríni sagt, ég vil ekki vera með neina vanvirðingu. Mér finnst gaman að koma til eyja, það er rétt hjá þér. Það var í þeirra höndum að halda sér uppi en þeir hefðu þurft að vinna stórt til að halda sér uppi, en jú, mér finnst gaman að koma til eyja."
Nú hefst vinna Keflavíkur við leikmannamál og sjá hverjir verða áfram í Lengjudeildinni.
„Við förum í vinnu í vetur með leikmannamál og reynum að búa til það gott fótboltalið að við getum farið beint upp aftur."
Athugasemdir