Tóku það ekki í mál að Ívar færi suður
Ívar Örn Árnason átti sitt besta tímabil á ferlinum á nýliðnu tímabili með KA. Miðvörðurinn, sem er 26 ára, lékí 26 af 27 leikjum liðsins og alltaf nema tvisvar lék hann allar 90 mínúturnar. Fréttamaður Fótbolta.net hitti á Ívar í KA heimilinu í dag og ræddi við hann um tímabilið.
Ívar byrjar á því að fara almennt yfir tímabilið hjá KA sem endaði í 2. sæti, fimm stigum fyrir ofan Víking og tíu stigum á eftir Íslandsmeisturum Breiðabliks. Í kjölfarið var Ívar svo spurður út í sitt tímabil. KA verður í pottinum þegar dregið verður í 1. umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar á næsta tímabili.
Ívar byrjar á því að fara almennt yfir tímabilið hjá KA sem endaði í 2. sæti, fimm stigum fyrir ofan Víking og tíu stigum á eftir Íslandsmeisturum Breiðabliks. Í kjölfarið var Ívar svo spurður út í sitt tímabil. KA verður í pottinum þegar dregið verður í 1. umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar á næsta tímabili.
Það voru ekki margir sem áttu von á því að Ívar yrði í stóru hlutverki hjá KA. Dusan Brkovic var áfram frá því á tímabilinu á undan og þá var Oleksiyi Bykov fenginn frá Úkraínu á láni. Dusan byrjaði tímabilið í banni og Ívar greip tækifærið og gaf aldrei færi á því að vera tekinn úr liðinu. Hversu gaman var að taka þátt í þessu móti?
„Þetta er eitthvað skemmtilegasta sumar sem ég hef átt. Það voru örugglega ekki margir búnir að spá því en ég setti mér markmið að nýta þessa þrjá leiki sem Dusan yrði í banni. Ég ætlaði að verða í þannig stöðu að þjálfarinn gæti ekki tekið mig úr liðinu. Við byrjuðum á að vinna fyrstu þrjá leikina og það hjálpaði klárlega. Þetta var ógleymanlegt tímabil, ég er afskaplega feginn og mjög ánægður. Þetta er búið að vera ótrúlega gaman og að vera í KA treyjunni er gífurlegur heiður fyrir mig sem uppalinn leikmaður," sagði Ívar.
Eitthvað var slúðrað um það síðasta vetur að Ívar yrði mögulega ekki með KA tímabilið 2022, yrði ekki á Akureyri. Hvað varð til þess að þú tókst þetta tímabil með KA?
„Það var fyrst og fremst þrjóska í Sævari Péturs, Hjörvari Marons og Gulla Eiðs. Ég barðist fyrir því að fá að fara, ég var ekki sáttur með spiltímann - mínúturnar síðasta sumar. Ég er kominn með kærustu sem er að sunnan og ætlaði að reyna komast suður og finna mér lið þar. En Sævar tók það gjörsamlega ekki í mál og sannfærði mig um að vera áfram og taka verkefnið áfram. Ég er það heiðarlegur að um leið og fimmta fundi var lokið og það var ennþá sama niðurstaðan þá ákvað ég að bíta í það súra epli og ætlaði að taka slaginn með KA. Ég sannfærði konuna um að koma norður og við sjáum ekki eftir því í dag. Við erum búin að kaupa okkur fasteign hérna fyrir norðan og það er allt í blússandi business."
Talandi um business, Ívar framlengdi samning sinn við KA í október eftir að hafa nýtt sér uppsagnarákvæði í gamla samningi sínum. Var það alltaf augljóst að KA yrði fyrir valinu?
„Framan af sumri þá var það ekki augljóst, en um mitt sumar þegar maður sá hvernig spilamennskan og sú athygli sem maður var að fá, þá byrjaði að kvikna sú hugmynd hjá mér að vera áfram. Maður er ekki einn í þessu og fyrsta samtalið var við kærustuna og fjölskylduna um að vera áfram á Akureyri. Ég elska að vera hérna þannig að það þurfti ekki að plata mig mikið (til að vera áfram). Um leið og Evrópuævintýrið var orðið staðfest þá var í mínum huga aldrei spurning um að taka slaginn (áfram). Ég hef alltaf verið í KA fyrir utan tvö lán sem ég hef farið á og fannst ég eiga skilið að sjá hvort það væri áhugi annars staðar frá. Þess vegna rifti ég samningnum. Í lok dags var aldrei spurning um að vera áfram í KA," sagði Ívar sem nú er samningsbundinn út tímabilið 2024.
Í viðtalinu er Ívar einnig spurður út í þjálfarann Hallgrím Jónasson, atvinnumennskudrauma og íslenska landsliðið þar sem hann var varamaður fyrir verkefnið sem nú er í gangi. Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst í fréttinni.
Athugasemdir