mán 08. febrúar 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Fannst ég vera gera þetta fyrir einhvern annan en mig sjálfan"
Ég finn það alveg og hef mjög gaman af því, sem KA-manni
Ég finn það alveg og hef mjög gaman af því, sem KA-manni
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ég fór í FH í fyrra, það var ótrúlega gaman þar
Ég fór í FH í fyrra, það var ótrúlega gaman þar
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það var áhugi héðan og þaðan en KA var alltaf efst á blaði og mig langaði mest þangað.
Það var áhugi héðan og þaðan en KA var alltaf efst á blaði og mig langaði mest þangað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er eitt það skemmtilegasta sem þú gerir, að vera með landsliðinu og í landsliðsferðunum.
Það er eitt það skemmtilegasta sem þú gerir, að vera með landsliðinu og í landsliðsferðunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er einhvern veginn þannig að allir virðast vera að vinna saman og það finnst
Það er einhvern veginn þannig að allir virðast vera að vinna saman og það finnst
Mynd: Hulda Margrét
Ég get sagt það í hreinskilni að í fyrra þá upplifði ég ekki jafn sterka tilfinningu um að koma heim.
Ég get sagt það í hreinskilni að í fyrra þá upplifði ég ekki jafn sterka tilfinningu um að koma heim.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst alveg ótrúlega vel á það. KA á sérstakan stað í hjarta mínu, eins og Akureyri. Ég er spenntur fyrir því að spila aftur fyrir félagið."

Daníel Hafsteinsson gekk á laugardag í raðir uppeldisfélagsins KA eftir eins og hálfs árs fjarveru. Daníel samdi við Helsingborg sumarið 2019 en var á síðustu leiktíð að láni hjá FH frá sænska félaginu.

Daníel er 21 árs miðjumaður sem á að baki nítján landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var viðloðinn U21 árs landsliðið sem tryggði sig inn í lokakeppni Evrópumótsins sem hefst í næsta mánuði.

Fótbolti.net heyrði í Danna í kvöld og ræddi við hann um ákvörðunina að koma aftur heim á þessum tímapunkti.

„Ég er núna á leið norður og fer í fimm daga sóttkví heima á Ak City," sagði Daníel. Hann ætti því að ná leiknum gegn Þór, leiknum sem öllu máli skiptir, úrslitaleiknum í Kjarnafæðismótinu.

Hvernig kemur það til að þú ert kominn aftur heim í KA?

„Það er smá aðdragandi ef við horfum á stóru myndina. Ég fer fyrst út 2019 og var í hálft ár þá í Svíþjóð, þá gekk fínt. Ég var svo að láni hjá FH í fyrra. Svo þegar ég kem út núna, og líka þegar ég kom út á sama tíma í fyrra, þá fannst mér ekki vera sama drifið í mér að mæta á æfingar og ég fann ekki ástríðuna sem ég er vanur að finna þegar ég mæti á æfingar."

„Þetta var orðið svolítið þannig að maður var að mæta til þess að mæta, hugsaði að það þyrfti að klára þetta af. Ákvörðunin um að koma heim var erfið, það hefur alltaf verið draumurinn að vera atvinnumaður en á þessum tímapunkti fannst mér að þetta væri ekki alveg mitt og þá tjáði ég Helsingborg hvernig mér liði og hvort hægt væri að finna einhverja lausn á þessu."

„Mig langaði aftur til Íslands og ennþá meira í KA. Mér fannst ég vera kominn á þann stað að ég væri að gera þetta fyrir einhvern annan en mig sjálfan. Drifið var farið og ég var hættur að njóta þess sem ég var að gera, svolítill Groundhog Day fílingur og hafði í raun ekkert með Helsingborg að gera. Ég veit að ég hefði fengið að spila helling af leikjum en þegar ég hugsaði þetta í þaula sá ég að þetta snýst um að finnast þetta skemmtilegt og njóta þess sem þú ert að gera, eitthvað sem mér fannst ég ekki vera að gera."

„Þó svo að ég sé ekki orðinn neinn reynslubolti þá lærði ég helling af því að vera einn hérna úti í þann tíma sem það var. Það er munur á því að eiga vondan dag eða vonda viku og að vera alltaf í sama erfiða róðrinum. Annað sleppur en hitt er erfitt til lengdar."


Snúum okkur að aðeins léttara efni, þú ert kominn heim í KA. Hvernig líst þér á það?

„Mér líst alveg ótrúlega vel á það. KA á sérstakan stað í hjarta mínu, eins og Akureyri. Ég er spenntur fyrir því að spila aftur fyrir félagið. Mig langar til að gefa af mér bæði innan vallar og utan vallar, langar að hjálpa félaginu að komast lengra og er mjög bjartsýnn á að það takist. Leikmannahópurinn er sterkur og Addi í brúnni. Ég vona að félagið geti stefnt enn hærra en áður."

Þú talar um að hafa valið KA, voru aðrir kostir í boði?

„Í rauninni var stefnan alltaf, í hreinskilni, sett á að koma í KA þegar ég vissi að mig langaði að fara heim. Ég fór í FH í fyrra, það var ótrúlega gaman þar. Ég var opinn fyrir að skoða allt núna en KA var númer eitt, tvö og þrjú á listanum. Það var áhugi héðan og þaðan en KA var alltaf efst á blaði og mig langaði mest þangað."

Þú varst samningsbundinn Helsingborg, var eitthvað mál að fá félagsskiptin í gegn?

„Ég lagði samtalið, við Helsingborg, þannig upp að félagið vissi að mig langaði að fara. Þetta var ekki þannig að ég vildi fara út af einhverju ósætti heldur sagði ég í hreinskilni hvernig mér leið. Ég nefndi ekki Ísland strax en eftir tvo, þrjá fundi þá voru ég og menn frá félaginu komnir á algjörlega sömu blaðsíðu. Þeir skildu að mér varð að líða vel með það sem ég var að gera til að vera 100% á verkefnið. Hitt hefði hvorki verið gott fyrir mig né þá."

„KA vildi fá mig og græjaði þau mál við Helsingborg, þetta gerðist mjög fljótt, ég þekki ekki hvernig viræðurnar voru milli félaganna."


Það virðist frá mér séð vera jákvæð orka yfir hlutunum hjá KA, virðist einhvern allt vera á uppleið. Finnuru þetta sjálfur?

„Já, 100%. Það er stóra ástæðan af hverju mig langaði að koma aftur í KA núna. Ég get sagt það í hreinskilni að í fyrra þá upplifði ég ekki jafn sterka tilfinningu um að koma heim. Ég get ekki sagt að mig hafi alls ekki langað í KA, ég hugsaði alveg út í það, en var ekki klár í það. Ég finn það núna, ég get ekki alveg sett fingur á það hvað það er, þetta er ekki bara einn leikmaður, stjórnin eða Addi, það er einhvern veginn þannig að allir virðast vera að vinna saman og það finnst."

„Ég horfi á liðið og bæði finn og sé að það er einhver stefna. Núna er verið að gefa allt í þetta, leikmennn að skrifa undir, menn að gera vel í því að mæta á morgunæfingar og margir að æfa tvisvar á dag. Eins og þú segir þá er einhver orka yfir þessu og vonandi leiðir það að góðum árangri. Ég finn það alveg og hef mjög gaman af því, sem KA-manni,"
sagði Danni léttur.

Þú komst aðeins inn á Adda (Arnar Grétarsson, þjálfara liðsins) áðan. Hvað finnst þér, horfandi utan frá, hann hafa komið með í liðið?

„Ég hef hingað til ekki farið á eina æfingu með Adda en ég hef séð nokkra leiki. Umræðan var svolítið á þá vegu að liðið spilaði ekki spennandi bolta, væri meira í því að einbeita sér að varnarleiknum. Það þarf samt alltaf að byrja á grunninum, varnarleiknum. Mér fannst liðið leyfa sér að spila boltanum meira þegar leið á og ég heyrði frá strákunum að það væri eitthvað klárt plan í gangi. Maður sér svo að hann er algjör fagmaður í því sem hann gerir og er með mikinn metnað og drifkraft í sínu starfi. Það er klárlega eitthvað sem heillaði mig."

Hvað langar þig að afreka með KA í sumar?

„Einfalda svarið er að mig langar að vera hluti af liði sem vinnur fleiri leiki en það tapar. Það er gaman að vera í liði sem er að vinna leiki. Það að vinna leik, að skapa hefð fyrir því að vinna, það sé stemning að vinna og því sé fagnað, það er eitthvað sem mig langar til að upplifa með félaginu og gaman að gera það með strákum sem ég þekki mjög vel. Ef þú vinnur fleiri leiki en þú tapar þá gefur það auga leið að það skilar fleiri stigum en ekki og stefnan er sett nokkuð hátt. Þó ég gefi ekki upp neitt sæti eða slíkt á þessum tímapunkti."

Aðeins að landsliðsglugganum í mars þar sem U21 leikur í lokakeppninni/milliriðlinum. Helduru að þessi skipti hafi einhver áhrif á þína stöðu?

„Ég veit ekki alveg hvernig það horfir við Davíð Snorra. Ég veit að hann mun horfa á leikina með KA og ég að sjálfsögðu stefni á að vera hluti af þessum hóp í mars. Ég var í öllum þeim hópum sem hægt var að vera í þegar ég var heill. Það væri draumur að spila með strákunum aftur. Ég spilaði síðast með þeim 2019, það voru þrjú verkefni sem ég missti af í fyrra vegna meiðsla. Það er langt síðan maður hitti strákana og ég stefni 100% á þetta mót. Það er eitt það skemmtilegasta sem þú gerir, að vera með landsliðinu og í landsliðsferðunum. Það ætti kannski ekki að skipta höfuðmáli hvort maður sé að spila æfingaleiki í Svíþjóð eða leiki í Lengjubikarnum hér heima. Ef maður stendur sig með sýnu liði og á skilið að vera í hópnum þá verður maður valinn."

Þú gerir þriggja ára samning, ertu eitthvað að horfa aftur út?

„Ég held ég hafi talað við einhverja tuttugu aðila þegar ég var að taka þessa ákvörðun að koma heim. Á endanum hlustaði ég á hjartað og ákvað að gott væri að koma heim. Ég sagði við umboðsmanninn minn að stefnan er ekki sú að koma heim til að fara strax aftur út. En ef eftir tvö eða þrjú ár, og mér líður þannig að mig langi aftur að fara út, þá er alltaf hægt að skoða það. Ég er ekki búinn að loka á að fara aftur út en planið var aldrei að koma heim til að stökkva aftur út. Tíminn verður að leiða það í ljós hvað gerist. Það er spurning um að standa sig hérna heima og þá sér maður hvað gerist. Nú er það að njóta þess að vera kominn aftur heim," sagði Daníel að lokum.
Athugasemdir
banner
banner