Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
banner
   fös 08. júlí 2022 09:17
Brynjar Ingi Erluson
Hörður á leið til Panathinaikos - Eitt sinn liðsfélagar en verða nú erkifjendur
Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon er að ganga til liðs við gríska stórliðið Panathinaikos en hann gerir tveggja ára samning við félagið. Þetta herma öruggar heimildir Fótbolta.net.

Hörður Björgvin, sem er 29 ára, yfirgaf rússneska félagið CSKA Moskvu fyrir nokkrum dögum eftir að hafa spilað þar síðustu fjögur ár, en nú hefur hann nýtt ævintýri í Grikklandi.

Panathinaikos sýndi Herði áhuga í júní og lagði í kjölfarið fram tveggja ára samningstilboð sem var samþykkt af hálfu leikmannsins. Nokkur önnur félög voru í myndinni, þar á meðal CSKA, en hann valdi Panathinaikos fram yfir sitt gamla félag.

Hörður hélt út í dag en liðið er í æfingabúðum í Austurríki og mun hann því hitta liðið þar og skrifa undir samninginn.

Panathinaikos hafnaði í 4. sæti grísku deildarinnar á síðustu leiktíð og vann þá bikarinn í nítjánda sinn í sögunni. Hann verður annar Íslendingurinn til að spila fyrir félagið en Helgi Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Vals, lék með liðinu frá 1999 til 2001 og fékk þar viðurnefnið „Hákarlinn".

Félagið er annað sigursælasta lið Grikklands á eftir erkifjendum og nágrönnum þeirra í Olympiacos, þar sem Ögmundur Kristinsson er á mála, en báðir eru uppaldir í Fram. Þeir spiluðu saman undir stjórn Þorvalds Örlygssonar frá 2009 til 2010.

Framarinn er að spila fyrir sjötta félagið á ferlinum. Hörður hélt ungur að árum til Juventus þar sem hann eyddi sex árum. Á þeim tíma var hann lánaður til bæði Cesena og Spezia áður en Bristol City keypti hann árið 2016. Tveimur árum síðar keypti CSKA Moskva hann fyrir 2,5 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner