West Ham hefur áhuga á Zirkzee - Disasi áfram úti í kuldanum - Casadó orðaður við Chelsea og Arsenal
banner
   mið 08. október 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Skilur Herjólf eftir og heldur í sólina í Zagreb - Mest „sexy" möguleikinn
'Ég horfi klárlega á þetta sem stökkpall'
'Ég horfi klárlega á þetta sem stökkpall'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það á eftir að koma í ljós hversu mikil breyting það verður'
'Það á eftir að koma í ljós hversu mikil breyting það verður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég var búinn að segja við ÍBV að stefnan mín hefur alltaf verið á að komast út, láta reyna á að vera atvinnumaður í fótbolta og geta sett alla mína orku í að spila fótbolta'
'Ég var búinn að segja við ÍBV að stefnan mín hefur alltaf verið á að komast út, láta reyna á að vera atvinnumaður í fótbolta og geta sett alla mína orku í að spila fótbolta'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er ljúf tilfinning að skilja við ÍBV í efstu deild'
'Það er ljúf tilfinning að skilja við ÍBV í efstu deild'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta er skemmtilegasti klefi sem ég hef verið partur af'
'Þetta er skemmtilegasti klefi sem ég hef verið partur af'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er alveg smá skellur að þurfa að kveðja'
'Það er alveg smá skellur að þurfa að kveðja'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég held að félagið sé bara á leið upp á við og menn geta hætt að efast'
'Ég held að félagið sé bara á leið upp á við og menn geta hætt að efast'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Samfélagið sem heild hefur tekið mjög vel á móti mér og allir eru mjög ánægðir fyrir mína hönd að ég sé að ná mínum markmiðum'
'Samfélagið sem heild hefur tekið mjög vel á móti mér og allir eru mjög ánægðir fyrir mína hönd að ég sé að ná mínum markmiðum'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Ég tek mér smá frí eftir tímabilið, ég og konan tökum tveggja vikna Teneferð pantaða. 16. nóvember fer ég út til Króatíu, næ fimm vikum þar fyrir jólafrí. Svo byrjar þetta með æfingaferð á nýju ári," segir Oliver Heiðarsson sem er á leið í króatísku úrvalsdeildina. Hann skrifaði undir hjá NK Lokomotiva Zagreb í sumar en fær ekki leikheimild fyrr en á nýju ári.

„Fyrsti leikur sem ég gæti spilað er 23./24. janúar. Ég fer fyrst út til að koma mér á sama tempó og leikmenn eru úti, venjast hraðanum og svona."

Hjálpar að hafa farið til Eyja
Heldur þú að þetta verði mikil breyting?

„Hvernig liðið spilar er ekki ósvipað og það sem gert er í Eyjum. Það er lagt upp með varnarsinnaðan leik og svo reynt að sækja hratt þegar boltinn vinnst. Ég heyrði í Loga (Hrafni Róbertssyni, fyrrum samherja úr FH) og hann sagði að það taki smá tíma að venjast hlutunum, hraðinn er meiri. Það á eftir að koma í ljós hversu mikil breyting það verður."

„Þar sem ég tók þetta skref til Eyja, fór og lærði að búa einn, kynntist nýju fólki og umhverfi, þá held ég að ég verði ekki lengi að aðlagast hlutunum utan fótboltans. Kærastan mun líka aðstoða mig í því, hún mun hjálpa mér að verða ekki klikkaður seinni part dags eftir að ég kem heim af æfingu."

„Hún kemur með út og litli gæinn, hundurinn, líka. Það kom allavega ekki til greina frá minni hlið að hún kæmi ekki með út, það hjálpar líka að hún er í fjarnámi í HÍ og getur því haldið áfram í sínu úti í Króatíu."


Losnar við Herjólf og Þorlákshöfn
Heldur þú að þetta verði samt ekki svolítið öðruvísi en að búa í Vestmannaeyjum?

„Jú, klárlega. Ég losna náttúrulega loksins við Herjólf og Þorlákshöfn og svona, rokið og kuldann, en þetta verður klárlega mikil breyting. Ég er að reyna læra grunnatriðin í málinu, hvernig maður kynnir sig og stöku orð með. Ég held að enskan muni koma mér ágætlega langt líka, þeir eru nokkuð góðir í henni."

Sækja leikmenn til að selja þá áfram
Hvernig er þetta félag, hvert er markmiðið?

„Þetta er félag sem er meira í því að sækja leikmenn til þess að selja þá svo áfram. Þeir eru ekki beint að horfa í úrslit, en segir ekkert nei við sigrum. Þau skilaboð sem ég fékk voru allavega þannig að það er engin gríðarleg pressa á því að vinna alla leiki. Þó að það komi slæmur leikur hér og þar, þá er markmiðið fyrst og fremst að gera menn að betri leikmönnum til þess að svo selja þá áfram og grætt á sölunum."

„Ég horfi klárlega á þetta sem stökkpall. Þetta er töluvert betri deild, þeir eru nálægt Ítalíu og það er mikið verslað úr Króatíu af löndunum í kring. Þeir eru búnir að vera mjög duglegir að selja leikmenn, bæði innanlands og svo út. Þetta er hugsað sem góð leið til að komast á annan markað."


Meira sexy en Skandinavía
Hver var aðdragandinn að þessu skrefi?

„Ég ræddi mikið við pabba og Bjarka Gunnlaugs umboðsmann sem hjálpaði mér í þessu. Við hugsuðum um hvað væri besti staðurinn til þess a þróa minn leik og komast svo á stærra svið. Stefnan var alltaf út, svo fannst mér þetta bara mest „sexy" möguleikinn. Það er meira ævintýri að fara til Króatíu, vera í sólarlandi og spila góðan fótbolta, frekar en að taka þetta týpíska skref í neðri deildir í Skandinavíu."

Þolinmæði og skemmtileg áskorun
Oliver nefndi Loga. Bæði Logi og Danijel Dejan Djuric eru í deildinni en hafa ekki fengið mikið að spila. Ertu ekkert stressaður að taka þetta skref hafandi séð fyrsta hálfa árið hjá þeim?

„Nei, ég horfi meira á þetta sem skemmtilega áskorun. Ég hef heyrt af umræðunni að þeir fái lítið að spila, en maður getur ekki ætlast til þess að maður hoppi beint inn í byrjunarliðið og fari strax að spila leiki. Það er mikilvægt að vera þolinmóður í þessum aðstæðum, halda áfram að þróa sinn leik og sýna að maður eigi erindi þarna og svo mögulega á stærra sviði. Pabbi sagði að það mikilvægasta í þessu væri að vera þolinmóður, vita hvað þú getur gert sjálfur og nýta tækifærið til þess að verða betri sem leikmaður og persóna."

Kaflaskipt tímabil
Oliver var spurður út í tímabilið 2025 hjá sér, en það hefur verið kaflaskipt. Hann er sóknarmaður sem fæddur er 2001 og hefur skorað þrjú mörk í 18 deildarleikjum á tímabilinu.

„Ég var mjög ánægður með kaflann áður en ég meiddist. Það var svekkjandi að meiðast á þessum tímapunkti því ég held að tímabilið hefði mögulega litið öðruvísi út ef ég hefði ekki meiðst á þessum tímapunkti. Þetta eru fyrstu stóru meiðslin á mínum ferli, það var alveg áhugavert að vera meiddur í tvo mánuði og geta ekki hjálpað liðinu. Ofan á það var þessi áhugi erlendis frá kominn, ég veit ekki hvernig ég hefði höndlað hann ef ég hefði verið heill."

„Þessir leikir svo sem ég hef svo spilað að undanförnu hafa aðallega verið til þess að koma mér á skrið. Ég hef átt fína leiki hér og þar, en ég er meira að hugsa um að komast í eins gott stand og ég mögulega get og ná stöðugleika í frammistöðuna. Ég er ekkert ósáttur við seinni hlutann, en ég er ekkert himinlifandi heldur - hefði alveg verið til í að skora fleiri mörk en eitt."


Menn geta farið að hætta að efast
Hvernig líður þér með þá staðreynd að þið eruð búnir að tryggja ykkur sætið í Bestu deildinni?

„Þetta er þriðja tímabilið mitt með ÍBV og okkur er aldrei spáð góðu gengi, og í síðustu tvö skipti höfum við komið á óvart. Það er mjög ljúft að geta sýnt að þetta er ekki bara lið sem fer upp og niður endalaust. Það er komið jafnvægi í hópinn, öllum líður mjög vel hérna. Markmiðið var alltaf topp sex og það var svekkjandi að ná því ekki - munaði engu. Ég held að félagið sé bara á leið upp á við og menn geta hætt að efast."

Ljúf tilfinning að skilja við ÍBV í efstu deild
Oliver var boðinn nýr samningur hjá ÍBV í fyrra sem hann kaus að skrifa ekki undir. Hann æfði með Watford og Everton fyrir um ári síðan eftir að hafa verið valinn leikmaður ársins í Lengjudeildinni.

„Ég var búinn að segja við ÍBV að stefnan mín hefur alltaf verið á að komast út, láta reyna á að vera atvinnumaður í fótbolta og geta sett alla mína orku í að spila fótbolta. Ef tækifærið hefði ekki komið þá var planið að fara út á reynslu núna í haust, láta einhvern veginn vita af mér. Ég fór á hálfgerða reynslu í fyrra til að kynnast atvinnuumhverfi og það var ógeðslega skemmtilegt. Ég var ekki kominn svo langt að hugsa um hvað ég myndi gera ef markmiðið að fara út myndi ekki nást. Ég er mjög ánægður með þessa lendingu."

„Það var einhver pæling að fara út í glugganum, en félögin hefðu þurft að ná samkomulagi sín á milli. Hefði það gerst þá hefði maður verið sáttur, en samt ósáttur. Á þeim tíma vorum við ekki öruggir, vorum á góðri leið en ekki búnir að tryggja okkur. Það hefði verið smá stress í manni að fara fyrr, maður hefði hugsað hvort maður hefði ekki átt að klára tímabilið. Ég sé ekkert eftir því að hafa náð að klára þetta með trompi. Það er ljúf tilfinning að skilja við ÍBV í efstu deild."


Mun sakna Eyja
Oliver á eftir að sakna Eyja.

„Alveg klárlega, þetta er skemmtilegasti klefi sem ég hef verið partur af. Samfélagið sem heild hefur tekið mjög vel á móti mér og allir eru mjög ánægðir fyrir mína hönd að ég sé að ná mínum markmiðum. Það er alveg smá skellur að þurfa að kveðja, en ég ætla ekki að útiloka að ég renni við einhvern tímann seinna," segir Oliver.
Athugasemdir
banner
banner