Miðjumaðurinn knái, Guðjón Pétur Lýðsson, er farinn frá Val en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Guðjón, sem er þrítugur, hefur leikið síðustu þrjú tímabil með Val og orðið Íslandsmeistari tvisvar sinnum með félaginu en hann gerði 3 mörk í 16 leikjum á síðasta tímabili.
Hann varð samningslaus eftir tímabilið og hefur verið að íhuga kosti sína síðustu vikur en hann ræddi við Ólaf Jóhannesson, þjálfara liðsins, á dögunum og er nú ljóst að hann yfirgefur félagið.
Mikill áhugi er á honum en í viðtali við Fótbolta.net á mánudag staðfesti hann að hann væri í viðræðum við fjögur félög. Hann hefur meðal annars verið orðaður við Fylki.
Hann hefur spilað fyrir félög á Íslandi á borð við Breiðablik, Hauka, Álftanes, Stjörnuna og svo lék hann einnig með Helsingborg í Svíþjóð.
Í heildin á Guðjón 271 leiki í deild- og bikar hér á landi og hefur hann gert 59 mörk í þeim.
Athugasemdir