Birkir Bjarnason, landsleikjahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins, skoraði eina mark Brescia í 2-1 tapinu gegn Catanzaro í Seríu B í dag.
Miðjumaðurinn hefur verið besti maður Brescia síðasta mánuðinn eða svo.
Hann var tilnefndur sem einn af þremur bestu leikmönnum fyrir nóvembermánuð og fer þá frábærlega af stað í desember.
Birkir skoraði eina mark Brescia á 20. mínútu gegn Catanzaro í dag en fór af velli í stöðunni 1-1.
Þetta var fjórða mark hans í deildinni á þessari leiktíð en Brescia er í 10. sæti með 19 stig.
Anton Logi Lúðvíksson og félagar hans í norska liðinu Haugesund verða áfram í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð eftir að hafa unnið Moss, 2-0, í úrslitarimmu.
Haugesund hafnaði í umspilssæti deildarinnar á þessu tímabili og mætti Moss sem vann umspilið í B-deildinni. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli en Haugesund vann góðan 2-0 sigur í dag.
Anton kom inn af bekknum þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og hjálpaði liði sínu að landa sigrinum.
Rúnar Þór Sigurgeirsson lék allan leikinn í vörninni hjá Willem II sem tapaði fyrir Heerenveen, 2-1, í hollensku úrvalsdeildinni. Kristian Nökkvi Hlynsson sat á meðan allan tímann á bekknum hjá Ajax sem tapaði fyrir AZ Alkmaar með sömu markatölu.
Ajax er í 3. sæti með 33 stig en Willem II í 12. sæti með 16 stig.
Kolbeinn Birgir Finnsson var einnig ónotaður varamaður er Utrecht lagði Almere City að velli, 3-1. Utrecht hefur spilað frábærlega á tímabilinu og er í 2. sæti með 35 stig.
Milos Milojevic og lærisveinar hans í Al Wasl unnu langþráðan 3-1 sigur á Al Bataeh í úrvalsdeildinni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Meistararnir höfðu ekki unnið deildarleik síðan í september og var sigurinn í dag því kærkominn.
Al Wasl er í 7. sæti með 13 stig, ellefu stigum frá toppnum.
Athugasemdir