Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, er að íhuga framboð til formanns Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Þetta kemur fram á mbl.is.
„Það er rétt að félög utan af landi hafa verið í sambandi við mig og ég get staðfest að ég er að skoða það, já. Það er frekar stuttur aðdragandi að þessu og ég er ekki reiðubúinn að gefa út yfirlýsingu um það hvort ég muni sækjast eftir embættinu," sagði Höskuldur við mbl.is.
Höskuldur segist vilja brúa bil sem hafi myndast á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Hann hefur beitt sér fyrir jöfnunarsjóði íþróttafélaganna.
„Ég hef velt fyrir mér pólitíkinni í þessu og ég skil aðkomu landsbyggðarinnar að þessu. Þar eru menn áhyggjufullir yfir stöðunni og ég held að menn sjái tækifæri í því að breyta aðeins til og hafa formann sem kemur af landsbyggðinni. Það hefur myndast viss gjá á milli liða á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Það þarf að minnka þá gjá og ná betra samtali þar á milli að mínu mati."
Höskuldur er fyrrum fótboltamaður og lék á sínum tíma með KA og Fram.
Tveir aðilar hafa staðfest framboð til formanns KSÍ en kosið verður á ársþingi sem fram fer í Vestmannaeyjum þann 11. febrúar. Það eru Guðni Bergsson, fyrrum landsliðsmaður, og Björn Einarsson, formaður Víkings í Reykjavík. Geir Þorsteinsson, sitjandi formaður, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri.
Athugasemdir