Hollenska stórveldið Feyenoord er búið að reka Brian Priske úr þjálfarasæti félagsins eftir um sjö mánuði í starfi.
Priske tók við Feyenoord af Arne Slot þegar hann var ráðinn til Liverpool síðasta sumar.
Priske er 47 ára Dani sem þjálfaði Midtjylland, Royal Antwerp og Sparta Prag áður en hann var ráðinn til Feyenoord.
Feyenoord hefur ekki gengið sérlega vel á tímabilinu eftir að hafa endað í öðru sæti Eredivisie á síðustu leiktíð, með 84 stig úr 34 umferðum. Liðið er í fimmta sæti sem stendur, með 39 stig eftir 21 umferð.
Þá endaði liðið í 19. sæti í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu og mætir AC Milan í tveimur umspilsleikjum um sæti í 16-liða úrslitum mótsins. Feyenoord vann frábæra sigra gegn Girona, Benfica og FC Bayern í deildinni og náði jafntefli gegn Manchester City, en liðið tapaði stórt gegn Lille auk þess að tapa heimaleikjum gegn RB Salzburg og Bayer Leverkusen.
Priske er rekinn eftir tapleiki gegn Ajax í deildinni og PSV Eindhoven í bikarnum, en hann var þó við stjórnvölinn í síðasta leik Feyenoord sem lauk með 3-0 sigri gegn Kristiani Nökkva Hlynssyni, Nökkva Þey Þórissyni og félögum í Sparta Rotterdam um nýliðna helgi.
„Þrátt fyrir að hafa náð stórkostlegum úrslitum í Meistaradeildinni hefur vantað allan stöðugleika í gengi liðsins á tímabilinu og þess vegna höfum við tekið þessa ákvörðun," sagði Dennis te Kloese, stjórnarformaður Feyenoord, meðal annars um brottrekstur Brian Priske úr starfi. „Við erum því miður ekki búnir að sjá nægilega miklar framfarir á leik liðsins."
Aðstoðarþjálfararnir Lukas Babalola Andersson og Björn Hamberg yfirgefa einnig félagið ásamt Priske. Pascal Bosschart, aðalþjálfari U21 liðs Feyenoord, mun taka við stjórn á aðalliðinu þar til nýr þjálfari finnst til að taka við starfinu.
Bosschart verður því við stjórn þegar Feyenoord tekur á móti AC Milan á miðvikudagskvöldið.
Hann verður án helsta markaskorara liðsins, Santiago Giménez, sem félagið ákvað að selja fyrir 35 milljónir evra í janúar. Giménez verður þó á vellinum á miðvikudaginn, vegna þess að AC Milan er félagið sem keypti hann.
Athugasemdir