Jóhann Berg Guðmundsson fyrirliði íslenska landsliðsins ræddi við Fótbolta.net eftir 4-0 tap liðsins gegn Hollandi í kvöld.
Lestu um leikinn: Holland 4 - 0 Ísland
„Erfiður leikur á föstudaginn sem tók mikið úr okkur. Tveir dagar á milli og ferðalag svo að mæta öðru svona góðu liði er alltaf erfitt og það gerist ekki oft að maður spilar gegn svona svakalegum liðum með tveggja daga millibili," sagði Jóhann Berg.
„Við vorum stundum lélegir á boltann, gátum haldið betur í hann. Við náðum ekki að komast nógu nálægt þeim í pressunni og stoppa fyrirgjafir. Svo þegar við reyndum að fara í pressuna settu þeir boltann á bakvið okkur, þeir eru auðvitað með hraða leikmenn, þetta var bara erfitt í dag."
Jóhann Berg var beðinn um að rýna í hollenska liðið fyrir EM.
„Þeir verða mjög erfiðir í föstum leikatriðum og erfitt að brjóta þá niður. Þeir eru með frábæra varnarmenn, Virgil van Dijk er eins og Rolls Royce þarna. Hann fer aldrei úr öðrum gír og er með allt í teskeið. Þeir verða mjög flottir og það gefur þeim sjálfstraust að klára okkur sérstaklega eftir að þeir sáu við unnum England," sagði Jóhann Berg.