Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 10. ágúst 2022 16:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
FH fer nýja leið og leggur fyrsta hybrid-grasið á Íslandi
Frá Kaplakrikavelli, heimavelli FH.
Frá Kaplakrikavelli, heimavelli FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH.
Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá FH-ingum í sumar.
Úr leik hjá FH-ingum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gervigras.
Gervigras.
Mynd: Getty Images
Hybrid-gras verður ekki lagt á Kaplakrikavöll strax.
Hybrid-gras verður ekki lagt á Kaplakrikavöll strax.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Núna er hafinn undirbúningur við það að leggja hybrid-gras á æfingasvæði FH í Hafnarfirði. Hybrid-gras er blanda af náttúrulegu grasi og gervigrasi.

Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, staðfestir þetta í samtali við Fótbolta.net.

Verður þetta fyrsta hybrid-gervigrasið hér á Íslandi, en FH mun fyrst setja það á æfingasvæði sitt og svo verður það tekið til skoðunar að setja það á Kaplakrikavöll. Hybrid-vellir líta út eins og grasvellir - og það er talað um að það sé eins og að spila á náttúrulegu grasi - en þeir eru sterkari en nátturulegt gras og líftími þeirra er lengri. Hybrid-vellir eru í notkun víða um heim, þar á meðal eru öll félög ensku úrvalsdeildarinnar á þannig völlum.

„Fótboltinn þarf að þróast og aðstæður þurfa að þróast. Við höfum verið að fylgjast með þessu í nokkurn tíma. Frá okkar sjónarmiði teljum við að þetta sé ákveðin framtíð. Við FH-ingar höfum haft trú á grasi umfram gervigrasi sem slíkt og hybrid-gras, það blandar hvoru tveggja. Það lengir líftíma grassins, það er fljótara að taka við sér og þú getur notað það lengur," segir Valdimar.

„Við ákváðum í samráði við bæinn að fara þessa leið, að setja þetta á æfingasvæðið til að byrja með og sjá hvernig þetta kemur út. Kannski með það að leiðarljósi að skoða síðar með aðalvöllinn. Við erum að taka æfingasvæðið í gegn og það er minna mál en að rífa upp völl sem er í notkun og setja svona upp. Við höfum mikla trú á þessu og erum spennt fyrir því að sjá hvernig þetta kemur út. Við vonum að þetta verði komið í gang seinni hluta næsta sumars. Undirbúningur er kominn af stað."

„Aðalmunurinn er sá að grunnurinn í þessu er náttúrulegt gras, með gervigrasi með. Mörg erlend félagslið hafa verið að gera þetta og þetta lítur meira út eins og grasvöllur en gervigras. Þú verður ekkert var við gervigrasið sem slíkt í þessu, en það hjálpar til við að lengja tímann og á að styrkja grasið."

Með því að vera með hybrid-gras þá lengist líftíminn, en það verður fróðlegt að sjá hvernig það hentar á Íslandi og hvort þetta sé eitthvað sem fleiri félög ættu að skoða.

„Sum Norðurlöndin og stór hluti Bretlandseyja eru með svona velli. Það er hérna loftslag sem veldur því að gras nær ekki að lifa allt árið hérna með góðum hætti en með því að hugsa um það og fá þessa blöndun þá lengjum við tímann. Við kepptum við Rosenborg fyrir ekki alllöngu síðan. Þeir eru með svona völl þar og það hefur reynst rosalega vel hjá þeim. Það getur verið ansi kalt og mismunandi veður þar. Þetta snýst um umhirðuna og hvernig þú hugsar um þetta. Menn hafa lært gríðarlega mikið á það hvernig á að bregðast við. Það þarf ákveðna umhirðu og fagþekkingu."

FH-ingar eru ekki alveg tilbúnir að taka skrefið yfir í gervigras og líta á þetta sem góða málamiðlun.

„Grasvöllurinn okkar, það er fallegasti grasvöllur landsins. Það er að stórum hluta út af því að við erum með snillinga í vinnu hjá okkur sem eru að hugsa um hann; gata hann, sanda hann og hlúa að honum. Það sama á við um gervigrasvelli, það eru alltof margir gervigrasvellir sem ekkert er hugsað um. Þetta snýst um hvar þú vilt vera og hvernig þú vilt gera þetta til þess að ná sem bestum árangri út úr þessu."

„Við höfum sagt það FH-ingar að alvöru fótbolti er spilaður á grasi og við höldum þeirri skoðun áfram á lofti. Grunnurinn að þessu er alvöru gras. Þetta er fyrsta skrefið til þess að sjá hvernig þetta greinist. Menn eru að reyna að vanda sig við þetta," segir Valdimar.

Snerpa leikmanna minnki við að æfa eingöngu á gervigrasi
Viðar Halldórsson, formaður FH, var í viðtali við Fréttablaðið á síðasta ári þar sem hann ræddi um kosti þess að vera með hybrid-völl.

„Það verður aftur á móti að líta til þess að það þarf að endurnýja gervigrasið á fjögurra ára fresti og það kostar á bilinu 60-80 milljónir. Ef þú notar gervigras sem aðalvöll hjá liði þá minnka gæðin með hverju árinu sem líður. Mér finnst til að mynda ekki hægt að líkja saman gömlu gervigrasi og grasvellinum okkar í toppstandi," sagði Viðar.

„Yfirmaður knattspyrnumála hjá Hammarby var að benda mér á skýrslu sem gerð var í Svíþjóð fyrir nokkrum árum, þar sem fram kemur að snerpa leikmanna minnki við að æfa eingöngu á gervigrasi. Leikmenn verði meira flatfóta við að æfa á gervigrasi, þar sem þeir nota tábergið minna en þeir sem æfa á náttúrulegu grasi. Þetta þarf líka að taka með í reikninginn."
Athugasemdir
banner
banner
banner