
Valentín Barco er meðal nýrra leikmanna Strasbourg eftir að hafa staðið sig vel á láni á seinni hluta síðustu leiktíðar.
Franska félagið Strasbourg er búið að festa kaup á danska miðverðinum Lucas Högsberg sem kemur úr röðum FC Nordsjælland.
Strasbourg greiði 15 milljónir evra fyrir leikmanninn og heldur danska félagið hlutfalli af framtíðar endursöluhagnaði.
Högsberg er aðeins 19 ára gamall og er nú þegar búinn að spila tvo A-landsleiki fyrir Danmörku. Hann hefur verið algjör lykilmaður upp yngri landslið Dana og festi sig í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá Nordsjælland síðasta haust, þegar hann var aðeins 18 ára.
Högsberg þykir einn efnilegasti miðvörður sem hefur komið frá Danmörku í einhvern tíma og verður spennandi að fylgjast með þróun hans. Einhverjir telja að hann muni enda hjá Chelsea, systurfélagi Strasbourg.
Högsberg er hvorki meira né minna en þrettándi leikmaðurinn sem gengur til liðs við Strasbourg í sumar.
Félagið er hingað til búið að eyða um 100 milljónum evra í nýja leikmenn í sumar. Fimm þeirra koma úr röðum Chelsea en Strasbourg er meðal annars búið að kaupa leikmenn frá Brighton, Nottingham Forest, Southampton og Borussia Dortmund.
Félagið er á sama tíma búið að losa sig við tólf leikmenn, þar á meðal Habib Diarra sem var seldur til Sunderland fyrir 35 milljónir evra og Mamadou Sarr sem fór til Chelsea fyrir 15 milljónir.
Markmið Strasbourg er að berjast um Evrópusæti í Ligue 1 á tímabilinu eftir að hafa endað í sjöunda sæti á síðustu leiktíð. Liðið leikur í Sambandsdeildinni í haust.
?? Welcome, Lucas! ??pic.twitter.com/dI1UrmjhDG
— Racing Club de Strasbourg Alsace English (@RCSA_English) August 9, 2025
Athugasemdir