Nokkrir Íslendingar komu við sögu í leikjum dagsins á erlendri grundu og voru tveir þeirra á skotskónum.
Elías Már Ómarsson gerði fyrsta mark Meizhou Hakka í dýrmætum sigri í efstu deild kínverska boltans. Elías og félagar vippa sér upp úr fallsæti með þessum sigri, þar sem þeir eiga núna 16 stig eftir 20 umferðir. Þeir eru tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Þetta er fyrsta markið sem Elías skorar fyrir Meizhou og er hann núna kominn með eitt mark og eina stoðsendingu í fjórum deildarleikjum.
Ísak Snær Þorvaldsson var þá í byrjunarliði Lyngby og skoraði eina mark liðsins til að jafna gegn Hvidovre í næstefstu deild danska boltans. Hann skoraði með frábærum flugskalla og er því kominn með þrjú mörk í fyrstu fjórum keppnisleikjum sínum með Lyngby.
Gestirnir frá Hvidovre tóku forystuna en Ísak Snær jafnaði snemma í síðari hálfleik. Það dugði þó ekki til að bjarga stigi þar sem gestirnir gerðu sigurmark á 79. mínútu. Lyngby er með sjö stig eftir fjórar fyrstu umferðirnar á nýju tímabili.
Ísak Bergmann Jóhannesson var þá í byrjunarliði Köln sem rúllaði yfir Atalanta í æfingaleik í gær, 4-0 lokatölur, á meðan Oskar Tor Sverrisson var í byrjunarliði Ariana sem sigraði Eskilsminne í þriðju efstu deild í Svíþjóð.
Elías Rafn Ólafsson fékk þá þrjú mörk á sig í dramatísku jafntefli Midtjylland gegn Fredericia í efstu deild danska boltans. Midtjylland er því með sex stig eftir fjórar umferðir. Þessi úrslit eru afar svekkjandi fyrir Elías og félaga sem voru 3-1 yfir á 70. mínútu. Daníel Freyr Kristjánsson var ekki í hóp hjá Fredericia vegna meiðsla sem ættu þó ekki að trufla hann mikið lengur.
Í næstefstu deild í Þýskalandi fékk Jón Dagur Þorsteinsson að spreyta sig síðustu 25 mínúturnar í markalausu jafntefli hjá Hertha Berlin gegn Karlsruher. Liðin mættust í 2. umferð deildartímabilsins og voru heimamenn í Berlín heppnir að tapa ekki leiknum. Hertha er aðeins með eitt stig eftir tvær fyrstu umferðirnar.
Í hollenska boltanum fékk Kristian Nökkvi Hlynsson að spila seinni hálfleikinn í óvæntu tapi FC Twente gegn PEC Zwolle. Kristian er nýlega genginn í raðir Twente og var þetta hans fyrsti keppnisleikur fyrir félagið. Liðin mættust í fyrstu umferð á nýju tímabili alveg eins og í næstefstu deild þar sem Helgi Fróði Ingason kom inn af bekknum í tapi hjá Helmond gegn Roda JC.
Það eru fleiri leikir í gangi þessa stundina þar sem Íslendingar eru að spila í efstu deildum í Svíþjóð, Hollandi og Noregi.
Wuhan Three Towns 1 - 2 Meizhou Hakka
0-1 Elías Már Ómarsson ('19)
1-1 Gustavo Sauer ('52)
1-2 Ngom Mbekeli ('65)
Lyngby 1 - 2 Hvidovre
0-1 M. Egho ('19, víti)
1-1 Ísak Snær Þorvaldsson ('48)
1-2 F. Hogh Jensen ('79)
Köln 4 - 0 Atalanta
Midtjylland 3 - 2 Fredericia
Hertha Berlin 0 - 0 Karlsruher
Zwolle 1 - 0 Twente
Helmond 1 - 3 Roda
Ariana 3 - 0 Eskilsminne
Athugasemdir