PSG býst við tilboðum í Donnarumma - Newcastle í framherjaleit - Hvert fer Jackson?
   sun 10. ágúst 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Guerra áfram í Valencia (Staðfest) - Danjuma á leiðinni
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það eru fregnir að berast úr herbúðum Valencia á Spáni þar sem miðjumaðurinn eftirsótti Javi Guerra er búinn að skrifa undir nýjan samning.

Guerra var meðal annars eftirsóttur af Manchester United, Atlético Madrid og AC Milan í sumar en varð að lokum eftir í herbúðum Valencia. Hann er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við félagið.

Guerra er 22 ára gamall og er algjör lykilmaður bæði á miðjunni hjá Valencia og í U21 landsliði Spánverja.

Valencia er þá að krækja í kantmanninn knáa Arnaut Danjuma úr röðum Villarreal. Danjuma er 28 ára Hollendingur með 6 landsleiki að baki. Hann hefur áður leikið fyrir Bournemouth, Tottenham og Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Valencia var í fallbaráttu á síðustu leiktíð þar til Carlos Corberán tók við stjórnartaumunum og gjörbreytti gengi liðsins. Félagið er búið að missa nokkra lykilmenn frá sér í sumar en er að vinna hörðum höndum að því að fylla í skörðin.

Liðið endaði í tólfta sæti í La Liga með 46 stig, aðeins sex stigum frá Evrópusæti. Það er frábær árangur í ljósi þess að liðið var í næstneðsta sæti deildarinnar þegar Corberán tók við, með 12 stig úr 17 leikjum.

Corberán tókst því að krækja í 34 stig fyrir Valencia í síðustu 19 umferðunum.

Miðvörðurinn César Tarrega er einnig búinn að skrifa undir nýjan samning við Valencia, sem gildir til 2030.


Athugasemdir
banner