Isak fær ekki að fara - Liverpool leiðir kappið um Guéhi - Chelsea setur meira púður í Garnacho - Calvert-Lewin rak umboðsteymið
   sun 10. ágúst 2025 16:19
Ívan Guðjón Baldursson
Samfélagsskjöldurinn: Palace verðskuldaði sigur eftir vítaspyrnur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Crystal Palace 2 - 2 Liverpool
0-1 Hugo Ekitike ('4)
1-1 Jean-Philippe Mateta ('17, víti)
1-2 Jeremie Frimpong ('21)
2-2 Ismaila Sarr ('77)
3-2 í vítaspyrnukeppni

Crystal Palace og Liverpool áttust við á Wembley í úrslitaleiknum um Samfélagsskjöldinn í dag og úr varð gríðarlega skemmtilegur slagur þar sem Hugo Ekitike skoraði strax á fjórðu mínútu.

Ekitike tók þannig forystuna fyrir Liverpool í sínum fyrsta keppnisleik. Hann átti gott samspil við Florian Wirtz áður en hann kláraði með laglegu skoti úr D-boganum.

Lærisveinar Oliver Glasner voru ákveðnir og fengu dæmda vítaspyrnu á 17. mínútu þegar Ismaila Sarr féll til jarðar innan vítateigs eftir klaufalegt brot Virgil van Dijk. Jean-Philippe Mateta skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum og staðan orðin 1-1.

Það leið þó ekki á löngu þar til næsta mark leit dagsins ljós. Í þetta skiptið skoraði Jeremie Frimpong í frumraun sinni með Liverpool eftir laglegan sprett á hægri kantinum. Frimpong ætlaði líklegast að gefa boltann fyrir en hitti hann skringilega, svo úr varð skemmtileg vippa sem flaug yfir Dean Henderson og beint í fjarhornið.

Meira var ekki skorað í fyrri hálfleiknum þar sem lítið var um færi en seinni hálfleikurinn var líflegur þar sem bæði lið komust í mjög góðar stöður og fengu góð færi.

Boltinn rataði þó ekki í netið fyrr en á 77. mínútu þegar Cody Gakpo missti boltann á slæmum stað og varnarmenn Liverpool misstu einbeitinguna. Þeir voru ekki nægilega vel staðsettir sem gerði Adam Wharton kleift að finna Sarr einan og óvaldaðan innan vítateigs. Senegalinn gerði vel að klára með að setja boltann í stöngina og inn til að jafna metin á ný.

Meira var ekki skorað svo lokatölur urðu 2-2 og grípa þurfti til vítakeppni. Bæði lið fengu góð færi til að skora á lokakaflanum en tókst ekki.

Vítakeppnin var gífurlega skemmtileg þar sem Mohamed Salah byrjaði á því að skjóta yfir. Alexis MacAllister lét svo verja frá sér og átti Eberechi Eze ömurlega spyrnu í kjölfarið sem Alisson varði auðveldlega.

Harvey Elliott tók líka lélega spyrnu sem var varin og svo skaut Borna Sosa í slána. Justin Devenny var síðastur að fara á vítapunktinn og gat tryggt Palace Samfélagsskjöldinn með marki. Hann þrumaði boltanum í netið og fagnaði dátt með liðsfélögunum.

Crystal Palace er að vinna Samfélagsskjöldinn í fyrsta sinn í sögunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner