Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 10. september 2019 10:30
Magnús Már Einarsson
Nabil Fekir segir Liverpool ljúga - Ekkert að hnénu
Mynd: Getty Images
Franski landsliðsmaðurinn Nabil Fekir segir að það sé lygi að félagaskipti hans til Liverpool hafi ekki gengið í gegn í fyrra þar sem hann hafi fallið á læknisskoðun.

Sumarið 2018 var greint frá því að Lyon og Liverpool hefðu náð samkomulagi um kaupverð upp á 53 milljónir punda. Fekir var meira að segja búinn í viðtali hjá sjónvarpsstöð Liverpool þegar félagaskiptin sigldu í strand og sögusagnir fóru af stað um að þar hefði læknisskoðun spilað inn í.

Fekir sleit krossband í hné tímabilið 2015/2016 og sagt er að Liverpool hafi haft áhyggjur af hnénu á honum. Fekir fór í sumar til spænska félagsins Real Betis á 22 milljónir punda en hann segist ekki skilja sjálfur af hverju félagaskiptin til Liverpool klikkuðu á síðustu stundu.

„Það fór mikið af lygum af stað og það hafði áhrif á mig. Sérstaklega fjölskyldu mína. Þetta særði fjölskylduna og mig. Sérstaklega þegar þú veist að það sem er sagt er ekki rétt," sagði Fekir.

„Það sem var sagt var ekki sannleikurinn. Hnéð mitt er í góðu lagi. Ég fór í læknisskoðun í Clairefontaine (æfingasvæði franska landsliðsins) og það var ekki sagt orð um hnéð á mér."

„Það versta er að sumir halda því fram að félagaskiptin hafi ekki gengið í gegn út af fjölskyldu minni. Það er lygi en þú verður að lifa með því."

„Viltu vita sannleikann? Ég veit hann ekki einu sinni - ég lofa þér því! Ég fór í læknisskoðun og síðan ákvað Liverpool að semja ekki við mig. Á einhverjum tímapunkti vildu þeir fá mig en þeir þurftu síðan að finna afsökun og það var hnéð á mér."

„Læknisskoðunin sem ég fór í á Clairefontaine var mjög skýr. Hnéð var í fullkomnu lagi og mér leið vel. Það eru engin vandræði með hnéð á mér."

Athugasemdir
banner
banner