Aston Villa tók á móti Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í Lille í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar fyrr í kvöld og skóp 2-1 sigur eftir nokkuð jafnan leik.
Emery er ánægður með sigurinn og vonast til að leikmannahópurinn sé tilbúinn fyrir þá gríðarlega erfiðu leikjatörn sem er framundan, bæði í enska boltanum og í Evrópu.
„Þetta var mjög erfiður leikur en við vissum það fyrirfram. Núna þurfum við að vera tilbúnir til að spila aðrar 90 mínútur gegn þeim og mögulega fara í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Við vitum að allir leikirnir eiga eftir að vera erfiðir á lokakafla tímabilsins og við eigum marga leiki framundan," sagði Emery eftir lokaflautið.
„Þetta er góður sigur fyrir okkur, það var mikilvægt að vinna á heimavelli en við verðum að bæta okkur fyrir seinni leikinn. Við þurfum að fara vel yfir leikskipulagið því Lille var að skapa sér of mikið af færum."
John McGinn, fyrirliði Aston Villa, svaraði einnig spurningum að leikslokum. Hann var gagnrýninn á stuðningsmennina sem mættu á völlinn en héldu ekki stemningunni uppi á lokakafla leiksins.
„Þessi leikur var svolítið upp og niður og áhorfendur virkuðu mjög flatir á lokakaflanum. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að við náðum í sigur gegn virkilega sterkum andstæðingum. Lille sýndi flotta frammistöðu í kvöld og við eigum erfiðan útileik framundan. Þetta eru 8-liða úrslitin og það eru engir auðveldir leikir eftir," sagði McGinn, og talaði svo um jafnteflið gegn Brentford frá síðustu helgi. Þar leiddi Aston Villa 2-0 á heimavelli en vörn liðsins slökkti á sér á níu mínútna kafla í seinni hálfleik sem varð til þess að Brentford komst í 2-3 forystu, áður en Ollie Watkins náði að skora jöfnunarmark á lokakaflanum.
„Stjórinn var mjög pirraður yfir því sem gerðist um helgina þegar við hleyptum Brentford aftur inn í leikinn. Við slökuðum aðeins á og það er algjörlega óásættanlegt þegar við erum í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni. Það er enn margt sem við þurfum að bæta í okkar leik."
Athugasemdir