„Ótrúlega ánægður með frammistöðuna. Við áttum góðan leik á móti góðu liði og erum virkilega svekktir að ná ekki einhverju út úr þessum leik," sagði Hallgrímur Jónasson, Haddi, eftir tap KA gegn Breiðabliki í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 0 - 1 Breiðablik
Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóan Símun Edmundsson voru settir á bekkinn fyrir leikinn í dag. Þeir komu inn á og Haddi var ánægður með frammistöðu þeirra.
„Þeir fengu að vita það og fengu að fara inn á í dag og voru mjög flottir. Við áttum góðan leik bæði fyrir og eftir að Grímsi og Jóan komu inn á. Þetta er svarið sem ég vil fá að menn setjist á bekkinn og hugsi sinn gang. Ég býst við því að þessi æfingavika verði þannig að þeir ætli að sanna sig og sýna að þeir eigi að byrja og þá er ég ánægður," sagði Haddi.
„Svona frammistaða mun skila okkur fullt af stigum. Við þurfum bara að hætta velja okkur leiki sem við leggjum okkur svona fram."
KA fór á gott skrið eftir tap gegn Breiðabliki í Kópavogi síðasta sumar.
„Við töpuðum fyrir þeim í fyrra 2-1 á útivelli og fórum svo á þvílíkt 'run', einhverjir tólf leikir sem við töpuðum ekki. Sama upp á teningnum í dag, áttum flottan leik og svo er spennandi leikur á fimmtudaginn. Keppni sem okkur þykir vænt um, við erum bikarmeistarar og ég vænti þess að fá sama vilja og sömu frammistöðu og í dag og þá eigum við góða möguleika að fara áfram," sagði Haddi.
Athugasemdir