„Blendnar tilfinningar. Miklir yfirburðir í leiknum, við fáum færi og stöður í seinni hálfleik sem við verðum að nýta svo við lendum ekki í því að vera berjast fyrir lífi okkar í föstum leikatriðum í uppbótatíma," sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir sigur á KA í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 0 - 1 Breiðablik
„Í þessum leik spila þeir með fimm flata djúpt og þrjá þar fyrir framan. Það er helvítis þolinmæðisverk og þarf mikil gæði til að komast í gegnum það."
Kristinn Steindórsson kom inn á í hálfleik fyrir Höskuld Gunnlaugsson sem meiddist á nára en Dóri vonast til að það sé ekki alvarlegt. Hann var mjög ánægður með innkomu Kidda.
„Kiddi Steindórs kom inn á og var langbesti maður vallarins í seinni. Þegar reynir á breiddina þá stíga menn upp eins og Kiddi og hann var gjörsamlega sturlaður," sagði Dóri.
Dóri var ekki sáttur með ásakanir frá KA mönnum eftir leik og það varð einhver æsingur í kjölfarið.
„KA menn sökuðu okkur um að tefja leikinn sem mér fannst óréttlátt. Við vorum að pressa þá maður á mann niður á vítateigslínu og marklínu í uppbótatímanum. Mér fannst við vera það lið sem lét leikinn tikka og opnuðum leikinn. Illa að okkur vegið að saka okkur um að tefja," sagði Dóri.
Athugasemdir