
„Við byrjuðum að byggja þetta upp fyrir fjórum árum. Við erum ekki búin, það eru fimm leikir eftir, en að verða meistarar er magnað," sagði John Andrews, þjálfari Víkings, eftir að liðið varð bikarmeistari í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 Breiðablik
Víkingur er bikarmeistari kvenna í fyrsta sinn í sögu félagsins og er jafnframt fyrsta félagið úr 1. deild til að vinna þennan titil. Svo sannarlega magnað afrek.
„Mér gæti ekki verið meira sama," sagði John þegar hann var spurður að því hvort það skipti einhverju máli að hann hefði fengið fullt af mjólk yfir glænýju jakkafötin sín. „Ég get alltaf farið með þau í hreinsun en þú getur ekki þurrkað út svona minningar."
„Ég hef unnið nokkra titla sem leikmaður og þjálfari, en þetta er sérstakt. Það var eitthvað í loftinu. Kannski eru það 2000 stuðningsmenn Víkinga, ég veit það ekki. Það er eitthvað sérstakt við þetta félag, strákarnir eru með það og við erum með það. Þetta er bara ótrúlegt."
„Breiðablik er risastórt félag, Ási er góður vinur minn og við berum mikla virðingu fyrir þeim. Þau eru stærri en við í augnablikinu en ef stærðin skipti máli þá væri fíllinn kóngurinn í frumskóginum," sagði John og bætti við að þessi leikur hefði verið mögnuð auglýsing fyrir kvennaboltann.
„Þetta var einn besti leikur sem ég hef verið hluti af. Þetta voru tvö frábær lið og tveir frábærir stuðningsmannahópar."
John ætlar að skemmta sér vel í kvöld, fá sér Guinness og knús frá móður sinni. „Sjáðu þarna, þetta er mamma mín."
Hægt er að sjá viðtalið hér að ofan en það er óhætt að mæla með áhorfi.
Athugasemdir