Frank vill endurnýja kynni sín við Schade - Guehi eftirsóttur - Upamecano til Liverpool?
   lau 11. október 2025 16:00
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Færin fóru forgörðum á Hlíðarenda - FH nánast búið að tryggja annað sætið
Kvenaboltinn
Valskonur gerðu jafntefli við Blika en fóru mjög illa með urmul af dauðafærum
Valskonur gerðu jafntefli við Blika en fóru mjög illa með urmul af dauðafærum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karitas Tómasdóttir skoraði fyrirgjafarmark
Karitas Tómasdóttir skoraði fyrirgjafarmark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kayla Marie Rollins skoraði sigurmark Þróttara
Kayla Marie Rollins skoraði sigurmark Þróttara
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Thelma Lóa Hermannsdóttir tryggði FH sigur á Víkingi
Thelma Lóa Hermannsdóttir tryggði FH sigur á Víkingi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur og Breiðablik gerðu 1-1 jafntefli í stórslag umferðarinnar í Bestu deild kvenna og þá er FH svo gott sem búið að tryggja annað sætið eftir magnaðan 3-2 endurkomu sigur á Víkingi í Kaplakrika.

Valur tók á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks á Hlíðarenda og leyfði Nik Chamberlain, þjálfari Blika, sér að hvíla nokkrar lykilkonur á bekknum með það í huga að Blikar mæta Spartak Subotica í seinni leiknum í Evrópubikarnum eftir nokkra daga.

Valskonur byrjuðu betur og var það Fanndís Friðriksdóttir sem tók forystuna. Elísa Viðarsdóttir tók hlaupið upp hægri vænginn, kom boltanum fyrir en þar voru Blikar í miklum vandræðum með að hreinsa og komst Fanndís í boltann sem lak yfir línuna.

Blikar settu í sóknargír og í raun ótrúlegt að liðinu hafi ekki tekist að jafna leikinn í fyrri hálfleik. Edith Kristín Kristjánsdóttir vann boltann eftir slakt uppspil Valsara en setti boltann framhjá af stuttu færi.

Tinna Brá Magnúsdóttir, markvörður Valsara, átti nokkrar svakalegar vörslur í markinu. Agla María Albertsdóttir átti skot fyrir utan teig sem Tinna varði út á Líf Joostsdóttir van Bemmel. Það leit út fyrir að Líf myndi jafna metin nokkuð örugglega, en Tinna náði að verja á ótrúlegan hátt með hnénu.

Nokkrum mínútum síðar varði Tinna Brá aftur tvisvar eftir hornspyrnu og hún í miklu stuði.

Í öllum þessum sóknargír gleymdu Blikar sér í örskamma stund og allt í einu var Jasmín Erla Ingadóttir komin ein í gegn á móti Herdísi Höllu Guðbjartsdóttur sem gerði frábærlega í að fara út á móti og varði með löppunum.

Þetta var það síðasta markverða sem gerðist í fyrri hálfleiknum, en hlutirnir áttu eftir að breytast í þeim síðari.

Snemma í síðari hálfleiknum jöfnuðu Blikar með afar sérstöku marki. Karitas Tómasdóttir fékk boltann úti hægra megin og ætlaði að koma honum fyrir en boltinn flaug yfir Tinnu, small í stöngina og inn. Glæsilegt mark, hvort sem hún var að reyna þetta eða ekki.

Valskonur voru hársbreidd frá því að taka forystuna á nýjan leik er Anna Rakel Pétursdóttir vann boltann og skaut af 35 metra færi, en boltinn í þverslá. Hörkuskot frá henni.

Kristín Dís Árnadóttir var að eiga góðan leik í vörninni og kom tvisvar til bjargar er Jasmín Erla kom sér í góðar stöður. Valskonur aðeins að pressa á Blikar en þær náðu ekki að búa til annað mark.

Blikar þurftu að gera markmannsskiptingu tuttugu mínútum fyrir leikslok. Kyla Elizabeth Burns kom inn fyrir Herdísi og varði svakalegt skot frá Fanndísi stuttu síðar í þverslá.

Kyla átti aðra mikilvæga björgun á lokakaflanum er Helena Ósk Hálfdánardóttir slapp í gegn. Kyla kom hratt út á móti og var Helena með Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur sér við hlið, en ákvað að reyna fara framhjá Kylu í staðinn sem gekk ekki upp. Þar skall hurð nærri hælum hjá Blikum.

Mínútu síðar fékk Fanndís tækifæri til að koma Val aftur í forystu en náði ekki að setja kraft í skot sitt eftir frábæran sprett. Jordyn Rhodes slapp þá ein inn fyrir undir lok leiks en setti boltann framhjá. Færanýtingin arfaslök hjá heimakonum.

Jafntefli niðurstaðan á Hlíðarenda. Valur fer upp í 5. sætið með 29 stig en Blikar auðvitað meistarar og nú með 53 stig.

Swift varði víti í sigri Þróttara í Garðabæ

Þróttur marði 1-0 sigur á Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Þróttarar voru enn í baráttu um annað sæti deildarinnar og ætluðu sér ekki að gefa þumlung eftir þar.

Bridgette Nicole Skiba, markvörður Stjörnunnar, átti stórkostlega vörslu frá Sierra Marie Lelii snemma leiks en var síðan í miklu basli rúmum fimmtán mínútum síðar er Þróttarar tóku forystuna.

Leikmenn Þróttar hópuðust í kringum Bridgette í horni sem tókst að verja boltann, en Kayla Marie Rollins stangaði frákastinu yfir markvörðinn og í netið.

Tvö mörk voru dæmd af í fyrri hálfleiknum. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir setti boltann í tómt net Þróttara á 28. mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu og undir lok hálfleiksins tók dómarinn mark af Katie Cousins vegna brots í teig Stjörnunnar.

Stjörnukonur áttu mjög fína kafla í fyrri hálfleiknum og byrjuðu þann síðari af krafti. Á 55. mínútu fengu þær vítaspyrnu er Úlfa Dís féll í teignum.

Úlfa tók vítaspyrnuna en Mollee Swift greip vítaspyrnuna nokkuð örugglega í skutlunni.

Mollee varði nokkrar tilraunir Stjörnunnar síðar í leiknum og átti stóran þátt í að Þróttur landaði sigrinum.

Þróttur er með 45 stig og er áfram í 3. sæti, en möguleikar liðsins á að taka annað sætið eru litlir sem engir. FH er með þriggja stiga forystu í þeirri baráttu og með +18 í markatölu á Þróttara.

Annað sætið svo gott sem tryggt

FH-ingar unnu mikilvægan 3-2 endurkomusigur á Víkingi í Kaplakrika og eru þar með nánast búnar að tryggja annað sætið.

Thelma Lóa Hermannsdóttir fékk fyrsta hættulega færi leiksins á 18. mínútu er hún slapp í gegn á móti Evu Ýr Helgadóttur, en Eva varði frábærlega í markinu.

Átta mínútum síðar kom Margrét Brynja Kristinsdóttir sér í dauðafæri. Hún stakk sér framhjá Evu í markinu og ætlaði að leggja boltann í opið markið, en varnarmaður Þróttara komst fyrir á elleftu stundu og bjargaði marki.

Það dugði skammt því aðeins mínútu síðar komust FH-ingar yfir er Deja Sandoval skallaði aukaspyrnu frá Andreu Rán Snæfeld í markið.

Hálfleikstölur 1-0 fyrir FH sem vildi tryggja annað sætið, en spennan átti eftir að magnast í þeim síðari.

Víkingar fengu vítaspyrnu á 52. mínútu sem Linda Líf Boama skoraði örugglega úr og fimm mínútum síðar kom Bergdís Sveinsdóttir þeim yfir eftir glæsilega fyrirgjöf frá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur.

Hálftíma fyrir leikslok jöfnuðu FH-ingar er Andrea Rán skoraði svokallað Ólympíumark eða beint úr hornspyrnu. Stórkostlegt mark og FH komið aftur inn í leikinn.

FH-ingar héldu áfram að pressa og kom sigurmarkið fyrir rest eða á 78. mínútu. Thelma Lóa fékk boltann frá Mayu Lauren Hansen og setti hann örugglega í markið.

Lagleg endurkoma í Kaplakrika og FH-ingar svo gott sem búnar að tryggja annað sætið með sigrinum. FH er með 48 stig og þriggja stiga forystu á Þrótt í baráttunni um annað sætið þegar ein umferð er eftir. Markatala FH-inga er mun betri og því formsatriði að tryggja annað sætið.

Valur 1 - 1 Breiðablik
1-0 Fanndís Friðriksdóttir ('12 )
1-1 Karitas Tómasdóttir ('48 )
Lestu um leikinn

Stjarnan 0 - 1 Þróttur R.
0-1 Kayla Marie Rollins ('21 )
0-1 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('56 , misnotað víti)
Lestu um leikinn

FH 3 - 2 Víkingur R.
1-0 Deja Jaylyn Sandoval ('27 )
1-1 Linda Líf Boama ('54 , víti)
1-2 Bergdís Sveinsdóttir ('57 )
2-2 Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir ('64 )
3-2 Thelma Lóa Hermannsdóttir ('78 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir