
Tindastóll sigraði FHL auðveldlega á heimavelli sínum 5-2 fyrr í dag, Fotbolti.net sendi nokkrar spurningar á Donna þjálfara Tindastóls af því tilefni
Frábær endir hjá ykkur á tímabilinu 5-2 sigur á FHL Hvernig fannst þér frammistaðan í dag og hvernig er tilfinningin að ljúka þessu tímabili á þeim nótum?
„Mér fannst frammistaða liðsins einfaldlega mjög flott í þessum leik. Skorum 5 frábær mörk og hefðum vel getað bætt við fleiri mörkum. Frábær sóknarleikur og heilt yfir var varnarleikurinn líka góður. Algerlega æðislegt að ljúka þessu erfiða tímabili á þennan hátt. Leikmennirnir eiga skilið stórt hrós fyrir að gíra sig svona vel upp í síðasta leikinn og ég er bara ótrúlega stoltur af þeim."
Lestu um leikinn: Tindastóll 5 - 2 FHL
Þetta var þinn síðasti leikur með Tindastól, hvernig hefur þessi tími með liðinu mótað þig sem þjálfara?
„Þessi tími hefur heilt yfir verið alveg frábær. Öll reynsla mótar mann að miklu leyti og ég hef lært mikið í gegnum þessi 4 tímabil sem voru öll mjög ólík en öll eftirminnileg á sinn hátt."
Það hefur verið mikil samheldni í þessu liði, hvernig hefur verið að leiða svona hóp og hvað verður þér minnisstæðast?“
„Þessi hópur er einstakur og á sterkan sess í mínu hjarta. Við höfum gengið í gegnum svo ótrúlega margt saman og ég er þakklátur fyrir allan þann tíma sem við höfum verið saman. Öll vináttan, ferðirnar okkar saman erlendis og innanlands standa uppúr. Við höfum náð ótrúlegum afrekum og upplifað mikið mótlæti líka en alltaf skín í gegn samheldnin og vináttan.“
Þú tekur nú við U-19 ára landsliðinu hvað tekur þú með þér frá þessum tíma inn í það verkefni?
„Maður tekur alla þá reynslu sem hefur mótað mann með sér í næstu verkefni og þetta verður engin undantekning á því. Það verður öðruvísi verkefni á sinn hátt en ég hlakka samt mikið til að kynnast fleiri leikmönnum og upplifa skemmtilega hluti með þeim á öðrum vettvangi.“
Hafði það áhrif á ákvörðun þína að taka við U-19 að þú gætir áfram búið á Sauðárkróki?
„Ég er klárlega mjög glaður með að búa á Króknum. Við fjölskyldan erum ánægð hér og það er plús að við getum verið hér áfram. Hins vegar verð ég samt sem áður mikið á ferðinni og á skrifstofu KSI og hlakka mikið til þess að vinna með öllu því góða fólki sem vinnur þar.“