Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 12. janúar 2016 15:45
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Raggi Sig: Óþægilegt og vandræðalegt að hlusta á þetta
Ragnar Sigurðsson og Þorgrímur Þráinsson.
Ragnar Sigurðsson og Þorgrímur Þráinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það fer mjög vel um okkur. Lars sagði okkur í dag að það séu mínus 10-15 heima. Það er ekki gaman fyrir fólkið heima en það var þægilegt fyrir okkur að heyra þetta þegar við vorum nýkomnir frá Íslandi," sagði landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson þegar Fótbolti.net heyrði í honum í dag.

Ragnar er í Abu Dhabi með íslenska landsliðshópnum en framundan eru leikir gegn Finnum á morgun og gegn heimamönnum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum á laugardag. Ragnar er sjálfur að fara að dvelja í Abu Dhabi þar til í lok mánaðarins.

„Ég verð eftir hérna og hitti Krasnodar hérna 19. janúar. Það verða rúmir tíu dagar til viðbótar. Það er rosalega þægilegur hiti hérna og maður kvartar ekki," sagði Ragnar.

Gullið tækifæri fyrir marga leikmenn
Ragnar segir að ferðin sé kærkomin til að komast í gang aftur eftir vetrarfrí í rússneska boltanum.

„Maður er ekkert í svakalega góðu formi núna þannig að það væri fínt ef maður fær mínútur á morgun eða í hinum leiknum."

„Þetta er líka gullið tækifæri fyrir leikmenn sem hafa lítið verið með. Þeir geta sýnt sig fyrir þjálfurunum, kynnst strákunum hérna og stemningunni í þessum ferðum. Þetta verður góð reynsla og tækifæri fyrir þá."


Garðar ófeimnastur í nýliðavígslunni
Garðar Gunnlaugsson, Andrés Már Jóhannesson og Emil Pálsson eru nýliðar í hópnum að þessu sinni. Eins og venjan er þá þurftu þeir að gangast undir nýliaðvígslu með því að syngja fyrir hópinn.

„Það er alltaf óþægilegt og vandræðalegt að hlusta á þetta. Þetta er nú samt sennilega óþægilegra fyrir þá," sagði Ragnar en Garðar og Andrés tók báðir lag eftir Bubba Morthens.

„Garðar Gunnlaugs var með flottustu röddina og hann var ófeimnastur. Það var langfyndnast að hlusta á Adda. Hann er fyndinn gaur og það er hægt að hlæja að honum. Emil tók eitthvað lag með Friðrik Dór. Ég veit ekki hvort það sé hægt að kalla það lag. Þetta var eins og hraðlestur," sagði Raggi léttur í bragði.
Athugasemdir
banner
banner
banner