Allir leikmenn í íslenska landsliðshópnum eru klárir í slaginn fyrir leikinn gegn Finnum á morgun. Íslenska liðið hefur æft í Abu Dhabi í dag og í gær fyrir leikinn á morgun.
„Það eru allir ferskir. Þetta hafa verið flottar æfingar. Menn taka þessu alvarlega og það er gaman að sjá það," sagði Heimir Hallgrímsson annar af landsliðsþjálfurum Íslands í samtali við Fótbolta.net í dag.
Þrír nýliðar eru í íslenska landsliðshópnum sem og margir leikmenn sem hafa lítið fengið að spreyta sig með landsliðinu undafarið.
„Það eru allir ferskir. Þetta hafa verið flottar æfingar. Menn taka þessu alvarlega og það er gaman að sjá það," sagði Heimir Hallgrímsson annar af landsliðsþjálfurum Íslands í samtali við Fótbolta.net í dag.
Þrír nýliðar eru í íslenska landsliðshópnum sem og margir leikmenn sem hafa lítið fengið að spreyta sig með landsliðinu undafarið.
„Þetta er gaman fyrir okkur og ekki síst fyrir þá, að fá að sýna sig og sanna. Við erum með ansi sterkan hóp miðað við janúar ferð og við erum ánægðir með það," sagði Heimir en hann reiknar með að reyndari landsliðsmenn spili á morgun. Minna reyndir leikmenn fá frekar tækifæri í leiknum gegn Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum á laugardaginn.
„Við erum bara búnir að fara á tvær æfingar. Fyrir algjöra nýliða er það kannski of lítið til að komast alveg inn í taktíkina. Á morgun notum við sennilega meira þá sem hafa verið með okkur áður og það er stór hluti af hópnum. Í seinni leiknum er meiri möguleiki á að menn séu komnir inn í þetta. Það er engum greiði gerður með því að láta menn spila taktík sem þeir hafa lítið sem ekkert séð eða æft."
Vilja gefa mönnum tækifæri
Íslenska liðinu hefur ekki vegnað vel í vináttuleikjum á meðan allt annað hefur verið uppi á teningnum í mótsleikjum. Heimir segir að menn séu aðallega að horfa til framtíðar í leikjunum tveimur sem eru framundan.
„Þó að við viljum alltaf vinna leiki þá er tilgangurinn með þessum janúar ferðum meiri framtíðar hugsun. Við viljum gefa mönnum tækifæri á að sýna sig og sanna og við viljum sjá hvort okkur hefur yfirsést einhverjir leikmenn. Þetta er ekki bara tækifæri fyrir þá sem hafa ekki verið í hópnum heldur er þetta líka kærkomið tækifæri fyrir leikmenn sem hafa verið mikið á bekknum hjá okkur og vilja spila. Að því leytinu til eru þetta frábærir vináttuleikir."
Finnar eru líkt og Íslendingar ekki með sitt sterkasta lið þar sem leikurinn á morgun fer ekki fram á alþjóðlegum leikdegi.
„Þeir eru í svipaðri stöðu og við, með leikmenn sem spila í Skandinavíu. Þeir eru með nýjan þjálfara sem er að koma með nýjar áherslur. Þeir eru að byrja upp á nýtt, með lið sem hefur ekki spilað mikið. Það er erfitt að leikgreina þá enda er það kannski ekki tilgangurinn með þessari ferð að fara djúpt ofan í það sem andstæðingarnir eru að gera," sagði Heimir um andstæðingana en leikurinn á morgun hefst klukkan 16:00 í beinni á RÚV.
Athugasemdir