Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
   mán 12. febrúar 2024 10:25
Elvar Geir Magnússon
Sigraðist á krabbameini og var hetja úrslitaleiks Afríkukeppninnar
Haller var hetja Fílabeinsstrandarinnar.
Haller var hetja Fílabeinsstrandarinnar.
Mynd: Getty Images
Haller greindist með krabbamein tveimur vikum eftir að hann gekk í raðir Borussia Dortmund.
Haller greindist með krabbamein tveimur vikum eftir að hann gekk í raðir Borussia Dortmund.
Mynd: Getty Images
Saga hans er svo sannarlega efni í kvikmynd, eða góða bók.
Saga hans er svo sannarlega efni í kvikmynd, eða góða bók.
Mynd: EPA
Það var risastór stund fyrir Sebastian Haller þegar hann skoraði sigurmark Fílabeinsstrandarinnar gegn Nígeríu í úrslitaleik Afríkukeppninnar í gær. Enda átti hann í miklum erfiðleikum með að hemja tilfinningar sínar í viðtölum eftir leik.

Haller greindist með krabbamein í eista sumarið 2022, aðeins tveimur vikum eftir að hann gekk í raðir þýska stórliðsins Borussia Dortmund. Hann setti fótboltaferilinn til hliðar á meðan hann gekkst undir tvær skurðaðgerðir og ýmsar lotur af krabbameinslyfjameðferð.

Fyrir um ári síðan mætti hann aftur út á keppnisvöllinn eftir að hafa sigrast á meininu hálfu ári áður. Í gær hirti hann svo allar fyrirsagnir með því að tryggja Fílabeinsströndinni ævintýralegan sigur gegn Nígeríu.

„Þetta er stund sem maður hefur leyft sér að dreyma um," sagði Haller sem skoraði einnig sigurmark Fílabeinsstrandarinnar gegn Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í undanúrslitum.

„Síðustu átján mánuðir hafa verið krefjandi fyrir mig og fjölskyldu mína. Eftir það sem hefur gengið á er frábært að standa hér í dag fyrir framan ykkur."

Það var í febrúar í fyrra sem Haller skoraði sitt fyrsta mark fyrir Dortmund og þessi 29 ára sóknarmaður er hetja Afríkukeppninnar ári síðar. Saga hans er svo sannarlega efni í kvikmynd, eða góða bók.

Sigur Fílabeinsstrandarinnar á mótinu er einnig gott kvikmyndahandrit. Gestgjafar mótsins virtust á útleið eftir riðlakeppnina og ráku landsliðsþjálfarann Jean-Louis Gasset. Liðið náði að haltra áfram sem eitt af liðunum með besta árangurinn í þriðja sætinu og undir stjórn bráðabirgðaþjálfarans Emerse Faé fór liðið alla leið og tryggði sér sigur í keppninni.

Endurkoma Haller hafði líka sitt að segja en hann var ekki í leikmannahópi Fílabeinsstrandarinnar í fyrstu þremur leikjum liðsins á mótinu vegna meiðsla. Hans fyrsti byrjunarliðsleikur á mótinu var í undanúrslitunum.

Haller fæddist í París og lék fyrir yngri landslið Frakklands. Móðir hans er frá Fílabeinsströndinni og árið 2020 tók hann þá ákvörðun að spila fyrir þjóðina. Eftir sigurinn í gær fagnaði hann meðal annars með goðsögninni Didier Drogba og Alassane Ouattara forseta Fílabeinsstrandarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner