Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 13. janúar 2023 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Hefur 100 prósent skilning á ákvörðun Söru - Einstakur karakter
Icelandair
Sara faðmar Sif.
Sara faðmar Sif.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.
Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sif Atladóttir.
Sif Atladóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Núna er bara einn leikmaður eftir í hópnum sem hefur farið á fjögur stórmót; markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir.
Núna er bara einn leikmaður eftir í hópnum sem hefur farið á fjögur stórmót; markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þrír leikmenn hafa farið á öll fjögur stórmót íslenska landsliðsins til þessa. Það eru Sara Björk Gunnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Sif Atladóttir.

Tvær þeirra hafa hætt í landsliðinu á síðastliðnum mánuðum, en það eru Sara Björk og Sif.

Sara tilkynnti það í morgun að hún væri hætt að spila með landsliðinu en það er hægt að lesa um ákvörðun hennar með því að smella hérna. Hún fær nú að verja meiri tíma með fjölskyldunni eftir langan landsliðsferil sem hún hefur lagt mikinn tíma í.

Undirritaður ákvað að heyra í Sif í dag til að ræða um ákvörðun Söru og þau áhrif sem hún hefur haft á landsliðið. Þær spiluðu lengi saman í liðinu og þekkjast vel.

„Fyrir landsliðið og stelpurnar í liðinu er þetta erfitt, það er það alltaf þegar þú missir svona reynslumikinn leikmann og leiðtoga út," segir Sif í samtali við Fótbolta.net þegar hún er spurð út í Söru.

„Sem vinkona og liðsfélagi Söru í mörg ár sem hefur fengið að fylgja henni þessa leið, þá hef ég 100 prósent skilning á þessu hjá henni. Það hafa verið stórkostleg forréttindi að fá að spila með henni í bláa liðinu öll þessi ár."

Það er ótrúlega sérstakt að mörgu leyti
Sara er sterkur karakter og frábær leikmaður sem er leikjahæsti leikmaður í sögu landsliðsins. Hvernig er að spila með henni inn á vellinum?

„Það er ótrúlega sérstakt að mörgu leyti. Áran sem hún hefur inn á vellinum, hún er ótrúlega smitandi. Maður finnur það hversu mikill leiðtogi hún er og hversu mikið hún vill vinna - að liðið sitt sé að vinna. Það er einstakt að hafa svona karakter innanborðs."

„Fyrir utan það að vera leiðtogi sem leikmaður þá er hún stórkostleg manneskja sem er umhugað um leikmennina í kringum sig. Það hafa verið stórkostleg forréttindi að fylgja Söru í hennar vegferð í fótboltanum. Ég er ótrúlega stolt af ferlinum hennar."

Er þetta mikið högg fyrir liðið?
EIns og Sif kemur inn á, þá er Sara einstakur leiðtogi. Hvernig verður það fyrir liðið að missa hana úr hópnum?

„Það verður alltaf skarð þangað til einhver önnur stígur og tekur við keflinu. Það er nóg af efnivið. Aðrir leikmenn munu stíga upp og þurfa að stíga upp, stíga í leiðtogahlutverk fyrr en heldur var ætlað. Það er á svona tímum þar sem fólk þroskast mest - þegar maður missir sinn öryggisleikmann út."

„Það er að detta út risa karakter. Þær þurfa að skapa nýtt andrúmsloft. Við eldri höfum vonandi skilið það mikið eftir að það ætti ekki að vera erfitt fyrir þær að skapa þetta. Ég hef fulla trú á því að hópurinn sé vel undirbúinn innan sem utan vallar."

„Ég veit að við eldri leikmenn höfum gert okkar besta til að undirbúa þá leikmenn sem eru að fara að taka við keflinu. Núna er þeirra tími til að skína og ég veit að þær eiga eftir að gera það vel. Þetta verður krefjandi fyrir þær, en ég hef trú á þeim."

Hvernig er að það að horfa á leikina heima í stofu?
Sif hætti að spila með landsliðinu seint á síðasta ári. Hún er því komin með smá reynslu í því að horfa á liðið utan frá. Er það skrítið að gera það eftir að hafa spilað svo lengi í landsliðinu?

„Það er alltaf skrítið. Núna er annað sem tekur við og ég fæ alltaf fiðring í magann þegar það er leikdagur. Þó svo að við séum ekki þarna akkúrat núna þá erum við alltaf í samskiptum við þær hvort sem er. Þær geta alltaf leitað til okkar. Þessi hópur hefur verið duglegur við að hvetja hvor aðra fyrir utan völlinn líka. Það skiptir máli."

„Það er alltaf sérstakt að horfa á þetta utan frá, en það er líka dásamlegt því þá fær maður að fylgjast með liðinu ásamt fjölskyldu sinni, að hvetja þær og vera stuðningsmaður fyrir utan í staðinn."

Ein besta fótboltakona í sögu Íslands, engin spurning
Sara er án efa ein besta fótboltakona sem hefur komið frá Ísland, ef ekki sú besta. Hún á allavega flottasta ferilinn þar sem hún hefur unnið Meistaradeildina tvisvar.

„Það sem mér finnst alltaf svo fallegt við hennar vegferð er að hún hefur aldrei ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Hún fer alltaf í toppana og sýnir og sannar að hún á heima þar. Hún hefur alltaf þurft að vinna sig inn hvar sem hún hefur komið að," segir Sif.

„Það skiptir ekki máli hvar hún stígur niður fæti, hún skilur alltaf eftir sig ákveðna vegferð og ef maður má sletta aðeins 'legend' spor. Svo er hún í dag í Juventus sem stjarnan sem hún er."

„Hún er ein af okkar allra bestu, 100 prósent. Hún mun alltaf vera það. Hún hefur breytt umhverfinu fyrir íþróttakonur með sinni nærkomu í íþróttalífinu. Ég held að komandi kynslóðir eigi að njóta góðs af því. Hún mun halda áfram að styrkja og hvetja áfram komandi kynslóðir að elta drauma sinna. Hún hefur sýnt að ef maður setur markmiðið hátt, að þá getur maður heldur betur náð því ef maður vill það mikið," sagði Sif, sem er sjálf mikil goðsögn, að lokum um þessa mögnuðu íþróttakonu og þessa mögnuðu fyrirmynd sem Sara Björk er.
Athugasemdir
banner
banner