Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 13. janúar 2023 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sara um ákvörðunina: Hefði verið fullkominn endir að hætta eftir HM
Icelandair
Sara með syni sínum.
Sara með syni sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ein sú allra besta.
Ein sú allra besta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara eftir síðasta landsleik sinn gegn Portúgal.
Sara eftir síðasta landsleik sinn gegn Portúgal.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Framtíðin er björt.
Framtíðin er björt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eftir EM þá byrjaði ég að hugleiða þetta. Ég vissi það að við áttum annað stórt verkefni framundan - að komast á HM - og það yrði fullkominn endir að klára það og hætta eftir HM," segir Sara Björk Gunnarsdóttir í samtali við Fótbolta.net

Hún tilkynnti það í morgun að hún væri hætt að spila með landsliðinu, 32 ára gömul. Hún er sú fótboltakona frá Íslandi sem hefur komist lengst á sínum ferli og er hún leikjahæsti leikmaður í sögu landsliðsins með 145 leiki. Hún hefur verið fyrirliði í ansi mörgum þeirra.

Það er ekki allt fullkomið í þessu lífi. Íslandi mistókst að komast á HM eftir dramatíska leiki gegn Hollandi og Portúgal. Leikurinn gegn Portúgal í október síðastliðnum var síðasti landsleikur Söru og er það svekkjandi að sá leikur hafi verið hennar síðasti, í staðinn fyrir að hún fái að kveðja á HM.

„Eftir leikinn á móti Portúgal þá fór maður dýpra í þessa hugsun um að hætta."

Mér finnst þetta rétti tímapunkturinn fyrir mig
Sara á enn mikið eftir í fótboltanum en hún ákveður samt sem áður að hætta með landsliðinu núna. Af hverju?

„Ég á nóg eftir, en mér finnst þetta rétti tímapunkturinn fyrir mig. Það er langt í næsta stórmót. Ég er búin að vera að slíta mér út í mörg ár, spila í mörg með eymsli eða illt einhvers staðar - með álagstengd meiðsli."

„Það spilar líka inn í að ég er komin með fjölskyldu og það eru ferðalög og álag með landsliðinu. Það mun ekkert minnka. Ég er að hugsa um að fá meiri tíma með fjölskyldu minni og líka að einblína betur á félagsliðið mitt; vera 100 prósent á þeim stað sem ég er á. Einhvern veginn var maður kannski að halda alltof mörgum boltum á lofti."

„Það eru margir hlutir sem spilar inn í en þetta er það helsta."

Að komast inn á fyrsta Evrópumótið?
Þessi magnaða fótboltakona á ótrúlegan landsliðsferil að baki. Hún kom fyrst inn í liðið þegar hún var aðeins 16 ára og er að hætta núna. Hvað er það sem stendur upp úr?

„Það sem stendur upp úr finnst mér var þegar við komumst fyrst inn á EM, á skautasvellinu. Við náðum að komast fyrst inn á Evrópumótið 2009 og það var ótrúlega stórt," segir Sara.

„Að komast á fjögur stórmót með landsliðinu var frábært; þróunin, bætingin og uppleiðin í kvennaboltanum í dag er alltaf að verða meiri og meiri, og það verður alltaf erfiðara að komast á þessi mót. Maður er ótrúlega stoltur að hafa komist á fjögur stórmót og að hafa tekið þátt í þeim öllum."

Hún segir að það standi líka upp úr að hafa orðið vitni að ákveðnum breytingum í landsliðinu. „Öll umgjörðin, aðstæður, áhorfendur, virðing, fjárhagur og allt í kringum kvennafótbolta yfir höfuð - að hafa upplifað það og sjá muninn. Það er eitthvað sem stendur líka upp úr, að hafa tekið þátt í því öllu."

Kem örugglega á Laugardalsvöll og fæ að kveðja
Síðasti leikur Söru á Laugardalsvelli var stórsigur gegn Hvíta-Rússlandi þar sem hún skoraði tvö mörk en áhorfendur vissu ekki þá að það væri kveðjuleikur hennar.

Þegar hún er spurð að því hvort hún hafi ekki hugsað um að taka einn alvöru kveðjuleik fyrir framan stuðningsfólk íslenska landsliðsins þá segir hún:

„Það hefði verið geggjað að gera það. Ég veit ekki hvenær næsti heimaleikur er, en ég er bara búin að ákveða þetta - búin að taka þessa ákvörðun. Ég kem örugglega á Laugardalsvöll og fæ að kveðja en ég mun ekki taka leik."

Framtíðin er björt
Sara hefur trú á því að framtíðin sé björt hjá landsliðinu - þó síðasta ár hafi verið vonbrigði - en viðurkennir þó að það verði skrítið að fylgjast með liðinu úr stúkunni eða sjónvarpinu.

„Mér líst vel á framtíðina hjá liðinu, hún er björt. VIð erum með marga reynda leikmenn og marga unga leikmenn sem eru að koma upp. Við erum með leikmenn í bestu liðum í Evrópu og höfum líklega aldrei verið með svona marga atvinnumenn að spila í svona góðum liðum," segir Sara.

„Það verður ótrúlega spennandi - en líka skrítið - að fylgjast með liðinu upp í stúku og í sjónvarpinu. Liðið heldur áfram að vera á uppleið og verður bara betra og betra."

Það verður klárlega mikill söknuður af Söru úr landsliðinu en núna mun hún einbeita sér að öðrum mikilvægum hlutum. Næsta stóra verkefni hjá landsliðinu er að reyna að komast inn á Evrópumótið 2025.

Sjá einnig:
Myndir frá mögnuðum landsliðsferli Söru Bjarkar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner