Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 13. mars 2020 15:30
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Úps... ég klúðraði þessu aftur!
Hafliði Breiðfjörð
Kannski er best að ég setji bikarinn aftur ofan í töskuna.
Kannski er best að ég setji bikarinn aftur ofan í töskuna.
Mynd: Stúdíó Dís - Heiða Dís Bjarnadóttir
Steven Gerrard í leiknum örlagaríka gegn Chelsea árið 2014.
Steven Gerrard í leiknum örlagaríka gegn Chelsea árið 2014.
Mynd: Getty Images
Hvað gerist næst? Svo ég vitni í Gauja Þórðar: ,,Það eina sem vitum er að við vitum ekki neitt!''
Hvað gerist næst? Svo ég vitni í Gauja Þórðar: ,,Það eina sem vitum er að við vitum ekki neitt!''
Mynd: Getty Images
Í gær vann Liverpool 3 - 2 sigur á Manchester City, þetta var tíundi sigur liðsins í röð og þeir eru komnir með 5 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Aðeins fjórum sigurleikjum frá Englandsmeistaratitlinum.

Vá... Það er komið að þessu, þetta er loksins árið okkar. Rétt rúmur mánuður og við verðum Englandsmeistarar í fyrsta sinn síðan 1990.

Það er ekki alla daga tilefni til að vitna í Britney Spears eins og ég geri í titli þessa pistils en það er aldeilis tilefni í dag. Dagurinn sem ég var að rifja upp hér að ofan var 14. apríl 2014. Ég viðurkenni að í sigurvímunni þarna gerði ég mistök, og ég fékk það líka í bakið.

Þennan örlagaríka morgun fór ég á eBay og pantaði mér Englandsmeistara bikarinn, fullkomna eftirlíkingu í fullri stærð. Þetta var eitthvað sem ég ætlaði að hafa til taks í lokaumferðinni.

Við unnum Norwich í næsta leik og svo kom að toppslagnum gegn Chelsea þar sem við ætluðum að fara langt með að klára þetta. Leikurinn sem tapaðist 2 - 0, leikurinn þar sem Steven Gerrard fyrirliði rann til í grasinu og kostaði okkur mark. Jafntefli í næst síðasta leiknum fór svo endanlega með þetta og það var ljóst að við unnum ekki titilinn.

Þau fáu sem vissu hvað ég hafði gert notuðu orðið jinx óspart þegar þau hittu mig. Gat verið að ég hafi eyðilagt titilvonirnar með þessu?

Víkur svo sögunni að árinu í ár, hinu stóra 2020. Við erum 11 manna vinahópur sem komum saman heima hjá mér þegar Liverpool spilar leiki. Mismörg hverju sinni auðvitað eftir hver komast en alltaf góð stemmning.

Við vorum að rúllla upp þessu tímabili og í byrjun febrúar síðastliðinn var forskotið orðið 22 stig. Það var orðið svotil ljóst að þetta var að fara að gerast. Þó svo aðalliðið myndi allt forfallast var ljóst að ekkert gæti tekið af okkur titilinn, varaliðið hafði sýnt það í vetur að þeir geta vel unnið öll lið og myndi landa titlinum.

Ég fékk hugdettu, smala öllum hópnum saman, förum með bikarinn í ljósmyndastúdíó og tökum myndir af okkur með hann. Höfum þær tilbúnar þegar við klárum þetta formlega. Þetta gerðum við 9. febrúar síðastliðinn og ljósmyndarinn skilaði okkur myndunum svo í dag, föstudaginn 13. mars 2020.

Föstudaginn 13. segi ég aftur. Ég er ekki örlagatrúar, trúi hvorki á jinx né að föstudagurinn 13. sé verri en aðrir. En ég þarf kannski að fara að trúa á eitthvað slíkt því þennan sama dag hefur ensku úrvalsdeildinni verið slegið á frest útaf heimsfaraldri kórónaveirunnar!

Það voru 8 dagar í að Liverpool myndi tryggja sér Englandsmeistaratitilinn þegar þessi ákvörðun var tekin í dag. Við vitum í raun ekkert hvað verður út frá þessu en svo ég vitni í Gauja Þórðar er staðan þessi: „Það eina sem vitum er að við vitum ekki neitt!'' Í mínum huga eru bara tvær sviðsmyndir og í dag er ómögulegt að segja til um hvor þeirra verður ofan á.

1) Ef illa gengur að berjast við heimsfaraldurinn lýkur mótinu núna og tímabilið 2019/2020 telur ekki. Það verður því enginn Englandsmeistari 2020. Ef þetta verður niðurstaðan skal ég lofa ykkur að bikarinn verður brenndur á báli. Annar eins óhappagripur er ekki til!

2) Mótið verður klárað seinna á árinu. Liverpool verður Englandsmeistari og við verðum öll í skýjunum. Ef það endar svona býð ég öllum stuðningsmönnum Liverpool að hitta mig og fá mynd af sér með bikarinn.

Meðan allt er í lausu lofti og enginn veit hver niðurstaðan verður glymur Britney Spears enn í höfðinu á mér, úps... ég klúðraði þessu aftur! Ég ætti kannski að breyta um stíl og biðla til annarra stuðningsmanna Liverpool með því að vitna frekar í Justin Bieber? „Er orðið of seint að segja fyrirgefiði mér?"
Athugasemdir
banner
banner
banner