mán 13. mars 2023 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Hrafn: Óþolandi og eitthvað sem við þurfum að laga
Ég verð að axla ábyrgð á því
Ég verð að axla ábyrgð á því
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
En auðvitað er samkeppnin mikil, ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna það.
En auðvitað er samkeppnin mikil, ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna það.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þessir tveir leikir eru framför frá Leiknisleiknum um daginn, það er ljóst.
Þessir tveir leikir eru framför frá Leiknisleiknum um daginn, það er ljóst.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Blikar eru komnir heim úr æfingaferð, Íslandsmeistararnir fóru til Portúgals og spiluðu tvo æfingaleiki. Fyrri leikurinn var gegn varaliði Brentford og sá leikur vannst, 2-0. Seinni leikurinn var gegn sænska liðinu Elfsborg og sá leikur tapaðist, 1-2.

Rætt var við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, um Klæmint Olsen og var hann í kjölfarið spurður út í æfingaferðina.

Markmiðið að vinna þessi lið
„Aðstæðurnar voru virkilega góðar, frábær æfingaaðstaða og leikirnir voru ólíkir. Leikurinn gegn Brentford var mjög góður, miklu betri en leikurinn gegn þeim í fyrra. Þeir náðu í góð úrslit á Atlantic Cup fyrr í vetur og eru með fínt lið. Við spiluðum hins vegar vel og þeir fengu varla færi. Í fyrra áttum við í basli með þá en vorum miklu sterkari í þessum leik. Það var fínn taktur, við vorum með góða stjórn á leiknum og vorum agaðir."

„Á móti Elfsborg vorum við töluvert sterkari aðilinn. En það er sama gamla, einbeitingarleysi í vítateigunum. Við erum mikla meira með boltann, sköpum miklu fleiri færi og erum miklu betri, en við gleymum okkur í tvö augnablik og þeir refsa. Svo nýtum við ekki færin okkar, þetta er óþolandi, eitthvað sem við þurfum að laga. Það er hægt að horfa í að við höfum spilað ágætlega gegn sænsku úrvalsdeildarliði, en það er ekki markmiðið. Markmiðið er að vinna þessi lið og ekki að gera þessi mistök sem við gerum."

„Þessir tveir leikir eru framför frá Leiknisleiknum um daginn, það er ljóst."


Gætu lent í því að 5-6 stór nöfn verði utan hóps
Óskar var með 24 leikmenn á æfingu hjá sér, allir í hópnum hjá Breiðabliki heilir heilsu fyrir utan Davíð Ingvarsson sem er að jafna sig eftir aðgerð. Þarf að skera hópinn niður fyrir mót?

„Það verður að koma í ljós hvernig þetta þróast, 24 í dag geta verið 21 á morgun. Þetta er allt svo brothætt og þú veist aldrei hversu marga þú ert með nema þann daginn."

„Ef að leikmenn koma, eru ósáttir við spilatímann, eru ósáttir við hlutverkið sitt í liðinu, þá verðum við að taka á því. Ég vil helst hafa alla, þetta er þéttur og góður hópur og mér finnst menn vera samstíga. En auðvitað er samkeppnin mikil, ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna það. En ég held að hún verði að vera það, held að það verði takmörkuð framför nema við búum til samkeppni."

„Þú getur lent í því að 5-6 stór nöfn verði utan hóps þegar allir eru heilir og allt í blóma. Þá er það eitthvað sem við verðum að taka á. Ég verð að axla ábyrgð á því."

„Við verðum líka að átta okkur á því að við erum búnir að vera mjög heppnir með meiðsli með litla hópa undanfarin ár. Elfar Freyr hefur mikið verið frá en í grunninn höfum við verið mjög heppnir með meiðsli, ekki mikið misst menn í mánuð frá eða svoleiðis. Hversu lengi gengur það upp? Þú getur ekki treyst endalaust á vera rosalega heppinn með meiðsli. Þú getur haft einhver áhrif með því að hitta sæmilega á rétt æfingaálag, við erum svo með frábæra sjúkraþjálfara og frábæra umgjörð."

„En þetta eru margir leikir og til að reyna halda takti í öllum leikjum og stundum dreifa álaginu, þá þarftu að hafa breiðan hóp. Hversu breiðan? Það er rosalega erfitt að segja til um það. Ef við erum rosalega heppnir með meiðsli þá er þetta stór hópur, en um leið og eitthvað er farið að kvarnast úr þá er hann fljótur að verða þunnskipaður."

„Við erum ánægðir með hópinn núna og svo verðum við að sjá hvernig tímabilið þróast. Ég vil allavega ekki að neinn fari. En auðvitað þurfa menn að vera ánægðir í Breiðablik, það er mjög mikilvægt. Ef að því er komið við þá viljum við ekki hafa neinn sem vill ekki vera. En ég hef allavega ekki fundið fyrir því ennþá að það sé staðan. Þetta mun koma í ljós þegar nær dregur móti og skýrari mynd komin,"
sagði Óskar að lokum.

Næst á dagskrá hjá Breiðabliki er lokaleikurinn í riðlakeppni Lengjudeildarinnar. Sá leikur er gegn ÍBV á morgun og þarf Breiðablik að vinna með þremur mörkum til að fara í undanúrslit.
Athugasemdir
banner
banner
banner