Það var skemmtileg stund fyrir Blika í dag þegar Ísak Snær Þorvaldsson lék sinn fyrsta leik fyrir félagið síðan haustið 2022. Ísak var valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar fyrir frammistöðu sína það tímabil og var um haustið seldur til norska stórveldisins Rosenborg.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 0 Vestri
Ísak glímdi við erfið höfuðmeiðsl í fyrra og var lengi að finna taktinn með liðinu. Hann hins vegar hjálpaði liðinu að komast áfram í Evrópu og endaði tímabilið virkilega vel og því kom það á óvart að norska félagið væri tilbúið að lána hann til Íslands.
Ísak fór í aðgerð í vetur vegna nárameiðsla en er nú mættur aftur á völlinn og lék hann síðustu tuttugu mínúturnar eða svo í leiknum gegn Vestra í dag.
Blikar í stúkunni tóku við sér þegar Ísak hljóp að varamannabekknum til að gera sig kláran og svo var standandi lófatak þegar Ísaki var skipt inn á skömmu síðar.
Damir Muminovic, samherji Ísaks, var spurður út í Mosfellinginn í viðtali eftir leik.
„Ísak er, þótt að hann hafi ekki verið lengi hjá okkur síðast, ákveðin goðsögn hérna í klúbbnum. Hann var helvíti góður fyrir okkur. Hann reyndar eyðilagði stoðsendingu fyrir mér hérna undir lokin, ég er ekki ánægður með hann og lét hann heyra það áðan," sagði Damir.
Ísak kom í Breiðablik fyrir tímabilið 2022 eftir að hafa leikið á láni með ÍA tímabilið áður frá enska félaginu Norwich.
Athugasemdir