Kamerúnski markvörðurinn Andre Onana ferðaðist ekki með Manchester United í leikinn gegn Newcastle United í dag og verður því ekki í hópnum. Guardian greinir frá.
Onana átti skelfilega frammistöðu gegn Lyon í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudag og ákvað Ruben Amorim, stjóri United, að hvíla markvörðinn um helgina.
Fabrizio Romano segir að Amorim hafi tilkynnt Onana eftir leikinn gegn Lyon að hann yrði ekki í hópnum gegn Newcastle og að best væri fyrir hann að aftengjast fótbolta eftir slæma viku.
Guardian segir þá frá því að Onana hafi ekki ferðast með United í leikinn og verði því ekki einu sinni á bekknum.
Tyrkneski markvörðurinn Altay Bayindir mun standa á milli stanganna í dag sem verður hans fyrsti úrvalsdeildarleikur með United.
Bayindir, sem er 26 ára gamall, kom til félagsins frá Fenerbahce fyrir tveimur árum og hefur spilað sjö leiki í öllum keppnum.
Athugasemdir