Hinn grjótharði Antonio Conte hefur verið ráðinn sem nýr þjálfari SSC Napoli og er félagið nú þegar búið að krækja í nokkra öfluga leikmenn í sumar.
Conte er sagður hafa mikinn áhuga á að fá framherjann sterka Romelu Lukaku til sín frá Chelsea, en þeir áttu mjög gott samstarf hjá Inter frá 2019 til 2021.
Það er þó ólíklegt að Napoli muni festa kaup á honum nema til að fylla í skarðið fyrir Victor Osimhen, sem gæti verið seldur í sumar. Conte er þó talinn vilja hafa þá báða í leikmannahópinum.
„Ég talaði við Victor og það er engin breyting á hans málum. Hann er topp leikmaður sem er samningsbundinn Napoli og verður áfram hjá félaginu þar til nægilega hátt tilboð berst. Við vitum ekki enn hvernig þessi saga mun enda," sagði Conte um Osimhen, sem hefur fengið leyfi til að ræða við önnur félög ef þau eru reiðubúin til að greiða rétta upphæð fyrir hann.
Chelsea og PSG eru meðal félaga sem hafa verið orðuð við Osimhen, en enska úrvalsdeildarfélagið gæti verið með forskot í kapphlaupinu þar sem það getur boðið Lukaku með í skiptum.
Þá er Conte einnig staðráðinn í því að halda Khvicha Kvaratskhelia og Giovanni Di Lorenzo hjá félaginu.
„Forsetinn lofaði mér að þeir yrðu báðir áfram hjá okkur og ég er mjög ánægður með það. Kvaratskhelia og Di Lorenzo eru lykilmenn fyrir félagið."
Athugasemdir