Seinni leikjum kvöldsins er lokið í Meistaradeild kvenna, þar sem Lyon og Chelsea unnu leiki sína til að halda fullkominni byrjun áfram.
Lyon heimsótti AS Roma í toppslag A-riðils og minnti franska stórveldið á sig með frábærum þriggja marka sigri.
Daelle Melchie Dumornay skoraði tvennu í fyrri hálfleik áður en Vanessa Gilles innsiglaði sigurinn í upphafi síðari hálfleiks. Afar sannfærandi 0-3 sigur staðreynd á erfiðum útivelli Rómverja sem lögðu Wolfsburg að velli í fyrstu umferð.
Celtic tók þá óvænt forystuna á heimavelli gegn Chelsea í B-riðlinum þegar Murphy Agnew skoraði á 22. mínútu.
Þær skosku voru ekki lengi í paradís þar sem Maika Hamano og Ashley Lawrence sneru stöðunni við á næstu 10 mínútum. Staðan var því orðin 1-2 þegar flautað var til leikhlés.
Chelsea sýndi mikla yfirburði en tókst ekki að bæta þriðja markinu við til að innsigla sigurinn. Celtic komst nokkrum sinnum í góðar stöður en tókst ekki að skapa mikla hættu. Hvorugu liði tókst því að bæta marki við leikinn og urðu lokatölur 1-2 fyrir Chelsea.
Chelsea er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir og situr Celtic eftir á botni riðilsins án stiga.
Roma 0 - 3 Lyon
0-1 Daelle Dumornay ('36)
0-2 Daelle Dumornay ('42)
0-3 Vanessa Gilles ('52)
Celtic 1 - 2 Chelsea
1-0 Murphy Agnew ('22)
1-1 Maika Hamano ('28)
1-2 Ashley Lawrence ('32)
Athugasemdir