Axel Óskar Andrésson, leikmaður Aftureldingar, fékk nokkuð þungt högg þegar hann lenti í samstuði við Milan Tomic, leikmann ÍBV, undir lok leiks í Mosfellsbæ í gær. Atvikið leit ekki vel út en hvorugur þurfti á börum að halda, þó að þær hafi verið kallaðar til.
Fótbolti.net ræddi við Magnús Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar, í dag.
Fótbolti.net ræddi við Magnús Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar, í dag.
Lestu um leikinn: Afturelding 0 - 0 ÍBV
„Staðan á Axel er bara góð, fór miklu betur en áhorfðist. Hann fékk ekki heilahristing eða neitt slíkt. Þetta var myndarlegur skurður við augað á honum sem búið er að sauma. Hann verður sprækur eftir nokkra daga reikna ég með," segir Maggi.
Axel verður ekki með gegn Hetti/Hugin á fimmtudag en Maggi vonast til þess að Axel nái leiknum gegn Víkingi eftir tíu daga. Axel átti góðan leik í hjarta varnarinnar gær og uppskar hrós frá þjálfaranum.
„Axel átti mjög góðan leik og sýndi hversu mikill stríðsmaður hann er í þessu augnabliki þegar hann vann boltann og lenti í samstuði. Það var virkilega gaman að sjá hugarfarið hjá honum í gær og góða frammistöðu."
Vonandi versta veður sumarsins
Þjálfarinn vonaðist þá til þess að veðrið í gær hefði verið það leiðinlegasta sem leikmenn og stuðningsmenn þyrftu að upplifa á þessu tímabili.
„Við fengum vonandi leiðinlegast veður sumarsins í gær, en það verður meiri blíða og meiri skemmtun í næstu tveimur leikjum; bikarleiknum og svo gegn Víkingi. Ég vona að við fáum ennþá fleiri áhorfendur og enn skemmtilegri stemningu á velinum í þeim leikjum. Það var vindur beint í stúkuna, ég hugsa að þetta hafi verið kaldasti fótboltaleikur sem fólk getur farið á, áhorfendur fengu allt í andlitið."
„Ég er þakklátur fyrir þá sem mættu og vonandi var þetta leiðinlegast veðrið þetta tímabilið," segir Maggi.
Athugasemdir