Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 14. maí 2024 18:52
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikarinn: Þór sló Fjölni úr leik í Grafarvogi
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fjölnir 0 - 2 Þór
0-1 Ingimar Arnar Kristjánsson ('59)
0-2 Ingimar Arnar Kristjánsson ('79)

Lestu um leikinn: Fjölnir 0 -  2 Þór

Fjölnir tók á móti Þór í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins og var leikið á gervigrasinu í Egilshöllinni þar sem heimavöllur Fjölnis er ekki tilbúinn fyrir sumarið.

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill þar sem Þórsarar byrjuðu betur en Fjölnismenn unnu sig inn í leikinn og fengu besta færi fyrri hálfleiksins, þegar Axel Freyr Harðarson komst í dauðafæri en Aron Birkir Stefánsson varði frábærlega.

Heimamenn gerðu tvöfalda skiptingu í leikhlé og byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti. Þeim tókst þó ekki að nýta þann kraft og fengu þeir mark í andlitið skömmu síðar. Ingimar Arnar Kristjánsson slapp fyrst í gegn og setti boltann framhjá úr dauðafæri en skömmu síðar slapp hann aftur í gegn, í þetta sinn eftir langa sendingu upp völlinn, og skoraði.

Halldór Snær Georgsson kom af marklínunni en tapaði kapphlaupinu. Ingimar var fyrri til boltans og skallaði hann yfir Halldór og í autt netið.

Leikurinn róaðist niður næstu 20 mínúturnar þar sem Þórsarar gerðu afar vel í að stöðva uppspil Fjölnis, allt þar til á 79. mínútu þegar Ingimar tvöfaldaði forystuna. Hann fékk laglega sendingu yfir varnarlínu Fjölnis og smellhitti boltann með viðstöðulausu skoti sem fór í stöngina og hinn.

Ingimar komst nálægt því að fullkomna þrennuna en tókst ekki á meðan heimamenn komust ekki nálægt því að minnka muninn. Lokatölur urðu 0-2 fyrir Þór sem heldur áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner