Staða Viðars Arnar Kjartanssonar hjá KA er mikið á milli tannanna á þeim sem fylgjast með íslenska boltanum. Hann var ekki í leikmannahópi KA í gær þegar liðið vann 3-0 sigur á Fram í Mjólkurbikarnum og tryggði sér sæti í undanúrslitum.
Þetta var í annað sinn í sumar og í bæði skiptin hefur þjálfarinn, Hallgrímur Jónasson, sagt að Viðar þurfi að standa sig betur á æfingum til að komast í hópinn.
Þetta var í annað sinn í sumar og í bæði skiptin hefur þjálfarinn, Hallgrímur Jónasson, sagt að Viðar þurfi að standa sig betur á æfingum til að komast í hópinn.
Viðar, sem er 34 ára og fyrrum landsliðsmaður, lék í tíu ár sem atvinnumaður erlendis og skoraði fullt af mörkum. Hann sagði við komu sína til KA að draumurinn væri að komast aftur út.
Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.
„Byrjunin í deildinni var slæm, ég kem ekki í góðu standi og ofan á það það var ég langt frá því að vera heill. Ég æfi vel og ég legg bara ennþá harðar að mér núna til þess að spila næstu leiki."
„Það tók lengri tíma en ég ætlaði mér að komast í form, ég myndi segja að það væri að koma núna, loksins."
„Haddi vill bara meira frá mér og þá mun ég leggja enn harðar af mér," segir Viðar.
Íslenski fótboltaheimurinn er ekkert svakalega stór og sögur fara hratt milli manna. Það heyrðust sögur í vor af því að Viðar hefði ekki mætt á einhverjar æfingar hjá KA. Í aðdraganda leiksins í gær var svo sagan þannig að Viðar hefði ekki æft með KA í aðdraganda leiksins.
Hefur það komið upp í sumar að þú hafir misst af æfingu eða jafnvel æfingum?
„Þetta er ekki svaravert og ég lít á þetta sem aðför."
„Ég er meiðslafrír núna og í góðu standi og þá er augljóst að mörkin munu koma," segir Viðar sem hefur lagt upp eitt mark en á enn eftir að finna netmöskvana sem leikmaður KA.
Getur farið erlendis
Á 433.is í dag var fjallað um það að í samningi Viðars væri riftunarákvæði sem bæði hann og KA geta nýtt sér þegar félagaskiptaglugginn opnar í júlí. Viðar var spurður út í þessa frétt á 433 og þetta mögulega ákvæði.
„Þegar ég fékk það tækifæri að fara í KA og skrifaði þar undir þá sagði ég að markmiðið væri að koma mér í form, skora fullt af mörkum og planið var að fara út aftur um sumarið. Spila aftur í útlöndum og klára minn atvinnumannaferil á góðum nótum. Ég var mun lengur í form heldur en ég bjóst við."
„Að mínu frumkvæði tókum við þá ákvörðun að ég ætti kost á því að fara út, sem mér finnst mjög eðlilegt fyrir þá leikmenn sem hafa áhuga á því að spila erlendis. Þetta er orðið svolítið þreytt hvernig þetta er sett upp allt saman," sagði Viðar.
Athugasemdir