Riccardo Calafiori, varnarmaður Bologna á Ítalíu, ætlar að velja Arsenal fram yfir Chelsea í sumarglugganum en þetta segir ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio.
Calafiori var einn af bestu varnarmönnum ítölsku deildarinnar á síðasta tímabili er Bologna tryggði sér Meistaradeildarsæti.
Arsenal og Chelsea hafa verið afar áhugasöm um miðvörðinn í sumar.
Samkvæmt Di Marzio er Calafiori búinn að ákveða að ganga í raðir Arsenal.
„Ég held að það verði gengið frá samningum því Calafiori vill fara til Arsenal. Í hans huga kemur aðeins Arsenal til greina. Chelsea reyndi að fá hann, en leikmaðurinn sagðist vilja Arsenal. Þau telja þetta hið fullkomna skref fyrir leikmanninn,“ sagði Di Marzio.
Arsenal er í viðræðum við Bologna en ítalska félagið haggast ekki á verðmiðanum. Það vill 50 milljónir evra þar sem helmingur af kaupverðinu rennur til Basel í Sviss.
Athugasemdir