
FH fór á Samsung-völlinn í kvöld og tapaði 2-0 gegn Stjörnunni í undanúrslitaleik Mjólkurbikarsins. Ólafur Kristjánsson þjálfari FH sagði það mikil vonbrigði að tapa þessum leik þar sem þeir fengu frábær færi til að komast yfir.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 0 FH
„Vonbrigði að tapa þessum leik, við vorum þéttir í fyrri hálfleik og gáfum engin færi á okkur þannig séð. Við fáum tvö frábær færi þar sem við skjótum í slá og stöng."
Jákup Thomsen var flaggaður rangstæður þegar Brynjar Gauti reyndi við boltann og missti hann innfyrir. Ólafur var brjálaður yfir þeirri ákvörðun og sagði hana kolranga og það hafi reynst þeim dýrt.
„Það kemur atvik sem ég er gríðarlega ósáttur við þegar Jákup Thomsen er að sleppa í gegn og það er metið sem rangstaða þegar Brynjar Gauti reynir við boltann og missir hann innfyrir. Ég hef heyrt um eitthvað helvítis þungt flagg hérna í deildinni í sumar, það var helíum í þessu andskotans flaggi! Ég var mjög ósáttur með að hann skyldi flagga á þetta."
FH hafa fengið á sig ótrúlega mörg mörk eftir föst leikatriði í sumar og Ólafur er orðinn þreyttur á því og segir þennan leik bara sögu þeirra í sumar.
„Það er pirrandi að þurfa að elta þetta mark sem þeir skora eftir fast leikatriði. Þú getur skrifað sögu okkar í sumar, við nýtum ekki færin og svo fáum við mark á okkur úr föstu leikatriði og svo eru svona ákvarðanir sem falla ekki með okkur. Þegar þú ert með lið í stöðu eins og við þá þarftu að fá þessi atviki með þér líka."
FH eru ekki að vinna fótboltaleiki þessa stundina, Ólafur segist þó ekki hafa hugmynd um hvort staða hans sé hættu en segir að hann hafi verið ráðinn í þetta verkefni og býst við að fá að halda því áfram.
„Ég hef ekki hugmynd um það, ég er ráðinn til þess og svo er það alltaf þannig að í bakherbergjum er talað saman. Ég veit að stjórn FH fór í ákveðið verkefni og ég var ráðinn í það. Við erum ekki á réttum kúrs en þá verða menn bara að vera með pung."
Athugasemdir